Skáldskaparmál - 01.01.1990, Síða 30
„Leitin að landinu fagra“.
Hugleiðing um rannsóknir á íslenskum
fornbókmenntum
ÖRNÓLFUR THORSSON
/
Sá fyrirlestur sem hér er prentaður í lítillega breyttri mynd er nokkuð laus í
rásinni, jafnvel sundurlaus. Einkum vakti það fyrir höfundi að vekja máls á
fáeinum álitamálum sem tengjast þeirri aðferðafræði sem lengstum hefur skipað
öndvegi hérlendis þegar rannsóknir á íslenskum miðaldabókmenntum eru
annars vegar, og þar var einkum tekið dæmi af tilgátum fræðimanna um aldur
íslendinga sagna. Álitamálin spretta m.a. af því fálæti sem nýstárlegum
kenningum er oft sýnt hérlendis og þeirri miklu áherslu sem við leggjum á
textafræðilegar rannsóknir, að því er virðist stundum á kostnað annarra
rannsókna (og þarmeð er ég ekki að gera lítið úr nauðsyn traustra vísindalegra
undirstöðutexta).1 Sumum þykir sem við Islendingar séum heldur utangátta í
hinni alþjóðlegu umræðu, eiginlega ekki viðræðuhæf um annað en rithendur og
handritanúmer, aldur handrita og ritunartíma, rittengsl og staðfræði, og þegar
sá gállinn er á okkur: um hugsanlega höfunda og heimili þeirra. Andinn leiki
lausum hala í vestri og austri, þar skrifi bókmenntafræðingar, mannfræðingar,
lögfræðingar og aðrir fræðingar þykkar bækur og lærðar um bókmenntaleg
einkenni íslenskra fornsagna, áhrif evrópskra miðaldabókmennta á íslenska
frumsmíð, samfélagsgerð þjóðveldisins, lög og réttarfar í samfélagi og sögum,
og annað í þeim dúr en við látum sem ekkert sé og grúfum okkur af enn meiri
áfergju yfir skinnið.2 Hér er sjálfsagt heldur djúpt í árinni tekið og ekki vil ég
halda því fram að öll vegsemd komi að utan, allt það sem hugsað sé í útlöndum
um íslenskar miðaldabókmenntir sé jafn merkilegt, hvað þá að það sé allt satt og
rétt. Þaðan af síður er ég þeirrar skoðunar að við eigum að kasta fyrir róða því
merkilega starfi sem hérlendis er unnið í handritafræðum.
I flutningi var fyrirlesturinn aukinheldur tvískiptur og tengslin milli
partanna tveggja lítil. I síðari hlutanum var Eiríkur Rögnvaldsson málfræðingur
í fyrirsvari og kynnti stuttlega vinnu sem þá var nýhafin og miðaði að því að
smíða orðstöðulykil (e. concordance) Islendinga sagna. Lykillinn gengur að
þeirri útgáfu sem kennd er við bókaforlagið Svart á hvítu (Islendinga sögur og
þættir I—III, 1987), en sá texti var vitaskuld unninn á tölvu og við það miðað af
ritstjóra hálfu að hann nýttist til rannsókna þegar útgáfan væri fullbúin. Orð-
SKÁLDSKAPARMÁL 1 (1990)
28