Skáldskaparmál - 01.01.1990, Page 36
34
Örnólfur Thorsson
Ég vil þó taka það aftur skýrt fram að ég er ekki að gera lítið úr hlut texta-
fræðinnar við rannsóknir á íslenskum fornbókmenntum. Það skiptir litlu af
hvaða sjónarhóli menn horfa, hvort þeir eru bókmenntafræðingar eða sagn-
fræðingar, allir þeir sem glíma við forna texta og illa varðveitta verða að gera sér
ljósa grein fyrir þeim vandkvæðum sem varðveislunni fylgja, og geta metið
„[...] að hve miklu leyti sé hægt að treysta þeim textum sem þeir eru að fást við,
hvað sé öruggt og hvað meira eða minna sennilegar tilgátur." Qakob Benedikts-
son 1981, 36). Traustar útgáfur eru sú undirstaða sem öll túlkun hvílir á. En um
leið má ekki gleyma því að ný bókmenntatúlkun getur breytt afstöðunni til
textans; þá verður nauðsynlegt að gefa hann út að nýju. Og sú trú að verkinu sé
lokið þegar texti hefur verið gefinn út í vísindalegri útgáfu með vandaðri
mállýsingu framan við er líka röng: þá hefst glíman við textann sjálfan.
Það ætti að gefa út sem flestar „gerðir“ eða tilbrigði af hverri sögu og eftir
sem flestum handritum og með sem minnstum leiðréttingum og lagfæringum;
í stað þess að flétta saman gömlum handritum og ungum á að gefa út varðveitta
texta í heild sem vitnisburð um sagnaritun á tilteknum tíma.11 Slíkar útgáfur
kæmu málvísindamönnum sjálfsagt að mestu gagni því þeir eru á höttunum
eftir mismunandi orðalagi: hvað breytist og hvenær og við athuganir af því tagi
er tölvutæknin drjúg; þær kæmu líka bókmenntamönnum að mestu gagni því
þannig fengju þeir í hendur efnivið til að kanna viðtökur þessara bókmennta
um aldir: hvernig gamall texti er lagaður að nýjum tíma. Þessi leið ætti að vera
greið á tölvutímum því ekki þarf að spara minnið í tölvunni einsog pappírinn
forðum þegar fundin var sú leið að prenta aðeins mismun handrita neðanmáls.
Þá er ekki síður forvitnilegt að velta fyrir sér varðveislusögu Islendinga sagna
og annarra fornrita; hvað ráða má af fjölda handrita, uppruna þeirra og sögu,
um vinsældir bókmenntategunda á ólíkum öldum: lásu menn helst guðsorð,
fræðirit og konungasögur á tólftu og þrettándu öld, Islendinga sögur og
lagabækur á þeirri 14. og rómönsur á fimmtándu og sextándu öld? Voru menn
kannski að semja Islendinga sögur langt fram á fimmtándu öld og jafnvel lengur
einsog virðist mega ráða af varðveislu sumra sagna?
Þessum spurningum verður ekki svarað hér en til gamans hef ég teiknað
þrjár myndir „of hið sama far“ sem fylgja þessu spjalli, sú fyrsta fer hér á eftir
(Mynd 1). Á henni má í fyrsta lagi sjá kenningar fræðimanna um aldur sagna
(gráir kassar), einkum er tekið mið af þeim fræðimönnum sem kenndir hafa
verið við íslenska rannsóknarskólann, almennum yfirlitsritum (uppsláttarritum
og bókmenntasögum) og nýlegum fræðilegum útgáfum sagna. Kenningar um
ritunartíma sagna eru nokkuð ólíkar en segja má að fræðimenn hafi orðið æ
varkárari í þeim efnum eftir því sem liðið hefur á öldina. I annan stað eru svo
auðkennd elstu handrit eða handritsbrot sagnanna (strikaðir kassar) og ber þar
að hafa í huga að þær tímasetningar eru margar óvissar og getur skeikað
mörgum áratugum: ungur maður skrifar 1330 eða gamall 1370. Ég studdist
einkum við sagnaútgáfur, handritaskrár og fyrsta bindi hinnar miklu orðabókar
sem nú er í smíðum í Kaupmannahöfn (Ordbog over det norrone prosasprog