Skáldskaparmál - 01.01.1990, Side 46
44
Örnólfur Thorsson
Egils sögu og Laxdælu. Sé Egils saga rituð á árunum 1220-30, mætti sennilegt virðast
að vestfirzkur sagnaritari um 1260 hefði kynnzt henni. Laxdæla mun vera frá miðri
13. öld, og má ætla, að hún hafi fljótt náð mikilli útbreiðslu. Samkvæmt þessu er
sennilegt, að Gísla saga sé fremur rituð rétt fyrir en eftir 1250.
(Björn K. Þórólfsson 1943, xl-xli)
Hér er gengið að því vísu að Islendinga sögur hafi borist landshluta á milli og
verið lesnar af öllum þeim sem störfuðu að því að setja saman sögur. Það er í
sjálfu sér ekki ósennilegt að þeir sem gaman höfðu af sögum hafi kynnst mörgu
því sem ritað var í landinu enda þótt dreifingarkerfi bókmennta hafi verið
heldur ófullkomnara en nú er. Hitt er verra, að gera ráð fyrir því að þróun
greinarinnar til upphæða sé bein og útúrdúralaus: þeir sem kynni hafi haft af
góðum sögum, jafnvel meistaraverkum, hafi lært af þeim vinnubrögð og gert
jafngóðar sögur eða betri. Við þekkjum það úr samtímanum að ekki standa
margir starfandi rithöfundar okkar jafnfætis Halldóri Laxness þótt þeir hafi
margir „mikla rithöfundar hæfileika" og hafi vonandi flestir lesið hann. Og
leirskáldin geta staðið á herðum stórskáldanna.
Sumir bókfestumenn ganga svo langt að álíta sögurnar einskæra skrif-
borðsvinnu höfundar sem situr í skonsu sinni með talsvert safn bóka sér við
hönd og moðar sögu sína úr því, persónulegri reynslu sinni og hugarflugi, lærir
af vinnu annarra og gerir betur. Höfundurinn verður meginviðfangsefnið
einsog Hallvard Lie (1939) gerir að umtalsefni í ritdómnum sem nefndur var
hér að framan. Þessi höfundarímynd leiðir fræðimenn oft útí býsna vafasamar
bollaleggingar um hver hann hafi verið, hvar hann hafi átt heima, hvort hann
hafi verið lærður maður eða leikur, hver atvinna hans hafi verið, o.s.frv. Og þá
er stutt í að samlíkingin við nútímarithöfunda verði algjör og hún varði ekki
aðeins vinnubrögð og tilgang höfundanna sjálfra heldur líka lesendur þeirra.
En fyrst og fremst er reynt að sýna fram á beint ritsamband milli texta,
hvernig einn höfundur hefur áhrif á annan. Einar Ólafur segir í bók sinni um
Ritunartíma Islendinga sagna:
Af öllum ráðum til að ákveða aldur sagna, er rannsókn rittengsla það, sem veitir
mesta fræðslu. [...] Með orðinu rittengsl er átt við, að söguritari sýni í riti sínu
þekkingu á eldra rituðu verki. Vera má, að hann noti hið fyrra verk vísvitandi, hitt má
líka vera, að hann hafi orðið fyrir áhrifum þess án þess að vita af. Verið getur, að hann
hafi það liggjandi á borðinu hjá sér, en líka getur verið, að hann hafi einhvern tíma
áður lesið það eða heyrt það lesið. Enn fremur er hugsanlegt, að hann hafi skráð
inntak þess eða inntak kafla úr því, og styðjist nú við það inntak, en ekki verkið sjálft.
Allra þessara möguleika verður að gæta, þegar reynt er að ákveða rittengsl.
(Einar Ólafur Sveinsson 1965, 92)
Hins vegar getur oft reynst örðugt að meta hvort um rittengsl er að ræða að
dómi Einars, einkum vegna munnlegra sagna. Það er heldur ekki óyggjandi að
ekki sé vitnað til rits: stundum virðast höfundar sneiða hjá því að greina frá efni
annarra sagna og það má þá kalla neikvæð rittengsl. Theodore M. Andersson