Skáldskaparmál - 01.01.1990, Síða 64
Skáldsöguvitund í íslendingasögum
HALLDÓR GUÐMUNDSSON
Seint hélt ég að ég ætti eftir að taka til máls þar sem íslendingasögur eru til
umræðu, hvað þá á ráðstefnu sem þessari þar sem allir ráðstefnugestir eru mér
fróðari um umfjöllunarefnið. Þegar ég lét til leiðast að leggja eitthvað til mála
var það mest af samstöðu með þeim sem að ráðstefnunni standa og með
ætlunarverki hennar, að ræða fornsögurnar sem bókmenntir. Þar sem ég hef í
vetur ásamt nokkrum áhugasömum nemendum verið að reyna að átta mig á
hvers konar bókmenntagrein skáldsagan er, þróun hennar og einkennum, ætla
ég að ræða hér nokkrar kenningar sem hafa orðið á vegi okkar, og varpa fram
hugleiðingum í spurnarformi um hver sé staða Islendingasagna í ljósi skáld-
sagnafræða. Semsé: Eru Islendingasögur skáldsögur, og hvar standa þær milli
söguljóða og rómana?
Síðasta orðið vísar okkur strax á fyrstu hindrunina sem á vegi okkar verður
í slíkum vangaveltum og má rekja til orðaforðans. Ef orðið skáldsaga er bara
tekið sem skálduð frásögn í lausu máli, efast víst nú orðið fáir um að a.m.k.
umtalsverður hluti Islendingasagna séu skáldsögur. En hér mun ég auðvitað
nota það sem þýðingu á orðinu roman, sem til er í mörgum málum, og Konráð
Gíslason ku hafa þýtt í orðabók sinni ýmist sem ástarsögu eða skröksögu. Það
þrengir merkinguna nokkuð, þótt Englendingar séu í raun best settir í þessu
efni, þar eð þeir skipta löngum skálduðum sögum í prósa í tvennt, romance og
novel, og er sú síðartalda jafnan sögð raunsærri í hversdagslegri merkingu
orðsins, rómansan ævintýralegri.
Tvennt ber flestum þeim saman um sem um skáldsöguna í þrengri merkingu
hafa fjallað: Hún er illskilgreinanlegust allra bókmenntagreina, form hennar er
opnast og teygjanlegast, og sögulega er hún iðulega tengd borgum og borgara-
legri starfsemi. Hvað kemur þetta þá Islendingasögum við? Jú, þær eru sérlega
merkileg og áhugaverð bókmenntagrein á mörkum hetjubókmennta, þ. e. sögu-
ljóða eða hetjukviða (hvaða þýðingu sem við kjósum á orðinu epos) og skáld-
sagna.1 En því aðeins er þetta áhugavert viðfangsefni að við leyfum okkur að
skoða skáldsöguna sem annað en bara form, og gerum ráð fyrir að bókmennta-
greinin hafi „þematísk“ einkenni, beri vitni tilteknu viðhorfi sem við gætum
kannski kennt við skáldsöguvitund (sem Englendingar myndu kalla „novelistic
sensibility").
SKÁLDSKAPARMÁL 1 (1990)
62