Skáldskaparmál - 01.01.1990, Page 71
Skáldsöguvitund í Islendinga sögum
69
börn og gamalmenni. Nú má auðvitað finna íróníu um framkvæmd hetju-
hugsjónar í persónusköpun einsog Birni úr Mörk í Njálu, en slík persóna er
alþekkt úr hetjubókmenntum - þetta er samanburðarpersónan, sem skemmtir
lesandanum og stækkar um leið hetjuna sjálfa, þ.e. Kára.
Þannig er þessu ekki farið í Hávarðarsögu. Það sérkennilega er að þar er
aðalpersónan fyrrverandi hetja með svo sérstæðum hætti að slíkt er nánast
óhugsandi í hefðbundnum hetjubókmenntum. Meðan sagan fer fram er hann
eiginlega ekki hetja nema í eigin hugarheimi; hann er stóryrtur en máttvana
þegar á hólminn er komið - það er liðveisla konu hans sem ræður úrslitum.
Þetta þýðir að athafnir hans eru iðulega séðar úr fjarlægð og verða stundum
kómískar, næstum sem í þöglumyndagríni. Taka má dæmi þegar Hávarður er
einu sinni sem oftar að leita réttar síns á þingi, en ójafnaðarmaðurinn Þorbjörn
slær hann svo hann fær blóðnasir. Segir þá:
Sprettur hann upp ákafareiður svo að sinn veg hrýtur hver peningurinn. Hann hafði
einn staf í hendi og hleypur að hringnum og setur stafinn fyrir brjóst einum manni
svo að þegar fellur hann á bak aftur svo að hann lá lengi í óviti. Hávarður stökk út
yfir mannhringinn svo að hann kom hvergi við og kom hvar fjarri niður og svo heim
til búðar sem ungur maður. Og er hann kom heim mátti hann við engan mann mæla
og kastaði sér niður og lá sem sjúkur væri. (1312)
Annað dæmi um gróteska gamansemi sögunnar og ánægju sagnritara af að láta
persónur taka breytingum er þátturinn af Atla í Otradal. Um Atla segir að hann
hafi verið „manna minnstur og vesallegastur" en þó varla vitað aura sinna tal,
svo einþykkur að hann vildi hvorki eiga við aðra menn gott né illt. Hann gekk
ekki í öðru en stakki sem hann skaust í einsog kólfi væri skotið, en auk þess var
hann ljótur, sköllóttur og inneygur. Nískur var hann með afbrigðum en safnaði
sífellt auði. Þennan mann gerir sögumaður Hávarðarsögu að miklum liðveislu-
manni okkar fólks, slægan og með afbriðgum ráðagóðan. Slík gagnger breyting
á persónum er sjaldgæf í hetjubókmenntum nema í sambandi við kolbíts-
minnið. En Atli breytist eiginlega ekki í fullburða hetju, hetjuskapur hans í
orustu reynist ekki annar en sá að bíta liggjandi mann á barkann.
Hvað er það sem snýr honum svona rækilega? Það kemur fram eftir að hann
kemur að máli við Þórdísi konu sína, þegar honum er ljóst að Steinþór mágur
hans hefur verið að sækja föng í búrið hans:
Atli svaraði: „Þess mun eg mest iðrast er eg hefi þig fengið og er eg vesall eigu. Veit
eg eigi hver verri maður er en Steinþór bróðir þinn eða hverjir meiri ránsmenn eru en
þeir sem með honum eru en tekið nú frá mér og stolið og rænt hér öllu svo að við
munum brátt á húsgangi."
Þá mælti Þórdís: „Aldrei mun okkur fé skorta og far í sæng þína og lát mig verma
þig nokkuð. Þykir mér sem þú sért stórlega kalinn."
Og það verður að hann hokrar undir klæðin hjá henni. Þykir Steinþóri mágur sinn
alllítilfjörlegur vera, hefir ekki á fótunum en steypt stakki á höfuð sér og tók hvergi
ofan. Atli smýgur þá undir hjá henni og er málóði, ámælir jafnan Steinþóri og kallar
ránsmann.