Skáldskaparmál - 01.01.1990, Blaðsíða 77
Sturlunga saga: Atburðir og frásögn
75
listarinnar að neinu ráði, býr yfir ýmsum töfrum. Því svipar til safns af smámyndum,
sumum skýrum, öðrum ógreinilcgum. Þar birtist lífið sjálft, eins og það var á 12. og
13. öld, eða eins og samtíðarhöfundum virtist það vera. Þeir áttu auðvelt með að
skynja smáatriðin, en samhengi mikilla og örlagaríkra atburða er oft örðugt að koma
auga á, fyrr en frá líður ...
Víða má rekast á þá skoðun, að frásagnir Sturlunga sögu séu hlutlausar, en það er
mikill misskilningur. Þær bera glögg einkenni höfunda sinna, eru mótaðar af lífs-
skoðunum þeirra og viðhorfum til atburðanna, sem þeir voru stundum riðnir við
sjálfir. Sumar hinna einstöku sagna eru beinlínis ritaðar í öðrum tilgangi en
sagnfræðilegum [xii-xiii].
Jón gerir hér grein fyrir takmörkunum Sturlungu sem sagnfræðirits og heim-
ildar en þykir jafnframt allt að samsteypunni frá listrænu sjónarmiði. Hann
bendir á að sögurnar séu úrval úr miklu meira efni. Urvalið byggist á sagnfræði-
legum áhuga og skilningi samtíðarinnar og sögurnar eru mótaðar af lífsvið-
horfum höfundanna. Jóni er því ljóst það val sem felst í því að fella atburði sem
hafa gerst í sagnfræðilega frásögn. Hann leggur þó enga áherslu á þetta atriði og
í inngangi hans skín sú skoðun í gegn að sögur Sturlungu séu því betri heimildir
sem þær eru lélegri listaverk (sjá t.d. bls. xxvi, xxx-xxxii).
Samkvæmt skoðun Islenska skólans eru samtíðarsögur samsafn af því sem
kallað hefur verið raunsannar frásagnir (natural narrative). Slíkum frásögnum er
svo lýst að þær segi frá viðburðum úr raunveruleikanum. Sögumennirnir færi
atburðina í frásagnarbúning þannig að komi fram um hvað frásagnirnar snúist
og hvers vegna þær séu sagnaverðar en áhrif þess á söguefnið séu takmörkuð, í
frásögnum birtist lífið sjálft (Culler 184-86). Slíkum frásögnum er hægt að
fyrirgefa margt á þeim forsendum að þær séu sannar. Efnisgrúinn hefur jafnvel
verið færður sem rök fyrir sannleiksgildi Sturlungu. Jón Jóhannesson áttaði sig
samt á því að þessi rök gætu verið tvíbent. Hann sagði m.a. um aldur Þorgils
sögu og Hafliða:
Skoðanir fræðimanna um aldur sögunnar hafa verið mjög skiptar. Sumir hafa gizkað
á, að hún hafi verið rituð skömmu eftir að hún gerðist, en það er eflaust fjarstæða.
Þeir menn hafa gert mikið úr því, hve sagan sé smásmuguleg og höfundur hljóti því
að hafa staðið mjög nærri atburðunum. En ég fæ ekki betur séð en hugmyndin um
smásmyglina sé blekking, sprottin af því, hve höfundur drýgir frásögnina með
samtölum, staðþekkingu og lífsreynslu sinni [xxiii].
Jón er m.ö.o. að lýsa því sem franski bókmenntafræðingurinn Roland Barthes
kallaði raunveruleikabrellu (effet de réel) í söguritun og raunsæilegum skáld-
sögum, þ.e. að hlaða frásögnina smáatriðum sem þjóna engum tilgangi fyrir
atburðarásina en eiga að gera söguna rauntrúrri (Barthes, „The Reality Effect").
Greinilega rýrir þetta sagnfræðilegt gildi Þorgils sögu og Hafliða í augum Jóns
enda taldi hann söguna vera dæmisögu.
Meðal raka Islenska skólans fyrir því að Islendingasögur séu skáldskapur eru
sagnfræðilegar veilur í sögunum og listræn frásögn þeirra (sjá Sigurður Nordal,
Hrafnkatla). Með sömu rökum gæti það kippt stoðunum undan heimildargildi