Skáldskaparmál - 01.01.1990, Page 86
84
Úlfar Bragason
full af lofi ef dæma má af þeim vísum sem varðveittar eru - þó ekki í Sturlu
þœtti heldur í Hákonar sögu Sturlu (Skjaldedigtning 2A: 102-08, 127-28).
Áheyrendur/lesendur þáttarins á miðöldum hafa vafalaust þekkt þessi kvæði
eða a.m.k. vitað að konungakvæði voru lofkvæði samkvæmt hefð.
En jafnframt sýnir þátturinn dirfsku Sturlu að koma til hirðarinnar vitandi
um reiði konungs í sinn garð. Áræðni hans gæti einnig birst í því að segja
Huldar sögu um borð á konungsskipinu. Nú vitum við raunar ekki um hvað
þessi saga var en gera má ráð fyrir að sögupersónan Sturla hafi valið frásagnar-
efnið í samræmi við kringumstæður eins og góðir sagnamenn gera. Preben
Meulengracht Sorensen hefur getið sér þess til að Huld tröllkona í frásögn
Sturlu sé sú sama og Huld hin fjölkunnuga í sögunni um Vanlanda og Vísbur í
Ynglinga sögu Snorra Sturlusonar (Sorensen 163). Ef hann á kollgátuna, vísar
saga Sturlu til þeirra álaga Huldar á norsku konungsfjölskylduna að innan
hennar verði alltaf blóðug átök (sjá Heimskringlu I: 28-31). Sturla hefur þá
minnt áheyrendur sína á skipinu og einnig áheyrendur Sturlu þáttar á þá óáran
sem hlýst af því að konungsefnin eru mörg. Samkvæmt Konungsskuggsjá, sem
mun hafa verið samin um 1250 handa sonum Hákonar konungs Hákonarsonar
(Holtsmark), er sterk konungsstjórn undir forustu réttláts, vel kristins konungs
(rex iustus) eina lausnin til að koma í veg fyrir deilur um landstjórn. Konungur-
inn á að vera sannorður, réttsýnn, friðsamur og örlátur. Sé hann hins vegar ekki
til slíkrar fyrirmyndar mun guð hegna honum (sjá Lönnroth, „Ideology and
Structure" 13-14).
Ef það er rétt að Huldar saga vísi til valdabaráttunnar í konungsfjölskyld-
unni, er Sturla áræðinn og hreinskilinn eins og margir aðrir Islendingar við
svipaðar kringumstæður í fornsögunum (Vésteinn Ólason). Magnús konungur
veit auðvitað gjörla um þessar deilur því að Hákon faðir hans hafði látið taka
Skúla jarl Bárðarson, tengdaföður sinn, af lífi. Sturla hefur þó kunnað sig svo
vel að hann fjallaði aðeins í kvæði sínu um Hákon um dýrð veldis hans eftir að
hann kvað niður alla keppinauta sína um konungstignina. Kvæði Sturlu um
Magnús mun einnig hafa verið konungsstjórninni til dýrðar. Með frásagnarlist
og kveðskap kemur Sturla Magnúsi í þá stöðu samkvæmt Sturlu þœtti að
konungur verður að taka hann í sátt ef hann vill koma fram eins og réttlátur
konungur. Sættist hann ekki við Sturlu kallar hann yfir sig refsingu guðs.
Eins og aðrar utanfararfrásagnir í fornbókmenntunum leiðir Sturlu þáttur í
ljós hvaða mann söguhetjan hefur að geyma (Vésteinn Ólason 68). Sturlu er lýst
sem vitrum og einörðum gæfumanni. Þegar Magnús konungur áttar sig á
eiginleikum Sturlu gleymir hann þeim sökum sem Sturla hafði verið borinn.
Magnús er réttsýnn konungur og allt fer vel að lokum eins og í kómedíunni.
Það má því segja að þátturinn sé konungsvaldinu til styrktar.
Sturla hafði reynt af veikum mætti að vinna gegn hruni goðaveldisins (sjá
Gunnar Benediktsson; sbr. Guðrún Ása Grímsdóttir 24). En nú varð hann
stuðningsmaður lénsveldis Hákonar Hákonarsonar og hrósaði jafnvel í kvæði
landvinningum konungs í norðri. Sturlu þáttur lýsir að söguhetjan ákveður að