Skáldskaparmál - 01.01.1990, Page 109
Grettla
107
gilda. Það er eitt svið hennar, ef þannig má taka til orða, og á því má skýra ófarir
Grettis fyllilega út frá skapgerð hans og ofsa sem fær ekki eðlilega útrás í
friðsömu bændasamfélagi. En sagan á sér annað svið þar sem leikast á óræð öfl.
Jafnvel má spyrja að hve miklu leyti Grettir sé maður og hve miklu vættur.
Hann er ákaflega mennskur í myrkfælni sinni, einsemd, kvensemi, visku og
hégómaskap. En hann er að hinu leytinu fullkomlega ómennskur í atgervi sínu
öllu, enda er honum stundum líkt við tröll í sögunni, til dæmis þegar hann
birtist Þórissonum að sækja eldinn: þeir halda að hér sé komið ógurlegt tröll,
ráðast á hann og því fer sem fer. Þeir hafa líka rétt fyrir sér að hluta. Hann á að
sumu leyti fremur heima meðal trölla og blendinga en manna og unir sér aldrei
betur en þegar hann er að kljást við þvílík skrýmsli. Þau ein virðast afli hans og
hamremmi samboðin. Sé litið einungis á þetta dulræna svið sögunnar þar sem
tröll, draugar og galdrakindir eiga við Gretti, má sjá öðruvísi byggingu
sögunnar og öllu einfaldari hinni í sniðum: fyrir og eftir Glám. Þetta styður
forboðatækni sögunnar.
Allt frá fyrstu blaðsíðunum um Gretti er ljóst að hann á eftir að verða
einstæður. Hvernig sem allt mun veltast verður hann að minnsta kosti ekki
bóndi. Menn fara líka fljótt að velta því fyrir sér hvernig muni fara fyrir honum.
Framan af er ekki mikill þungi í spásögnunum: „hann mun verða sterkur maður
og óstýrlátur," (bls. 972) segir Ásmundur í 16. kafla, og síðar í sama kafla eftir
fyrsta víg Grettis: „Ásmundur tók lítt á og kvað hann óeirðamann verða
mundu.“ (bls. 974) Fram að Glámi eru ummæli um Gretti mjög á sömu lund,
menn lofa hreysti hans og fræknleik en kvarta undan ofsa og ójafnaði. En þegar
Grettir tilkynnir í 34. kafla móðurbróður sínum, Jökli Bárðarsyni, að hann
hyggist ráða niðurlögum Gláms mælir Jökull lykilsetningu sögunnar og slær í
fyrsta sinn það stef sem á eftir að hljóma það sem eftir er hennar: „Sé eg nú, ekki
tjáir að letja þig en satt er það sem mælt er að sitt er hvað, gæfa eða gjörvug-
leikur.“ (bls.1008)
Grettir fer og sigrar drauginn og hreppir illa spá:
Mikið kapp hefir þú á lagið Grettir /.../ að finna mig en það mun eigi undarlegt þykja
þó að þú hljótir ekki mikið happ af mér. En það má eg segja þér að þú hefir nú fengið
helming afls þess og þroska er þér var ætlaður ef þú hefðir mig ekki fundið. Nú fæ
eg það afl eigi af þér tekið er þú hefir áður hreppt en því má eg ráða að þú verður
aldrei sterkari en nú ertu og ertu þó nógu sterkur og að því mun mörgum verða. Þú
hefir frægur orðið hér til af verkum þínum en héðan af mun falla til þín sektir og
vígaferli en flest öll verk þín snúist þér til ógæfu og hamingjuleysis. Þú munt verða
útlasgur ger og hljóta jafnan úti að búa einn samt. Þá legg eg það á við þig að þessi
augu séu þér jafnan fyrir sjónum sem eg ber eftir og mun þér erfitt þykja einum að
vera. Og það mun þér til dauða draga. (bls. 1010-1011)
Fram að þessu hefur akkilesarhæll Grettis verið skapferli hans; ofmetnaður og
vanstilling. Frama sinn á hann einkum að þakka viðskiptum við kynjaverur, þau
hafa orðið til þess að honum hafa fyrirgefist lestirnir. En hér eftir tekur líf