Skáldskaparmál - 01.01.1990, Blaðsíða 110
108
Guðmundur Andri Thorsson
Grettis að mótast af öðru en hans eigin lundarfari; hvað sem hann tekur sér
fyrir hendur, og hvaða hvatir sem stjórna því, þá mun það ævinlega snúast á
verri veg. Hann er bölvaður.
Hver hluti af þeim fimm sem talað var um áðan endaði á risi, nýrri og verri
útlegð. En greina má tvö meginris, tvo hápunkta: annar er glíman við Glám,
hinn dráp Grettis. Sagan stefnir hratt og markvisst að sínum fyrra hápunkti. Við
sjáum hve fíkinn Grettir er í að berjast við forynjur, hann stjórnast af hetjulund,
er bardagamaður en ekki bóndi. Hvörfin sem verða með Glámsþætti eru vel
undirbyggð með friðleysi Grettis og kappi að ná fundi Gláms. Sá þáttur byrjar
í 32. kafla, en í þeim 31. er skilist við Gretti þar sem hann er að fréttast fyrir
hvort nokkuð sé það er hann „mætti við fást.“ Þetta byrjar með formlegri
kynningu á bónda þeim sem fékk Glám á sig; síðan eru rakin tildrög þess,
Glámur kynntur til sögunnar, hlaðinn skrautlegum einkennum: „/.../ mikill
vexti og undarlegur í yfirbragði, bláeygur og opineygur, úlfgrár á hárslit.“ (bls.
1004) - útlitslýsingin er markviss, leikið er á vargseðli Gláms, litur hans er grár
eins og tunglskíman, og augun eru tekin út. Hann er síðan drepinn svo fljótt
sem unnt er og fer sjálfur að ganga aftur, nokkrar sögur eru raktar um það. Því
næst víkur sögunni aftur til Grettis, þangað sem frá var horfið áður, með
tengiformúlunni „nú er þar til að taka“ og greint er frá athöfnum hans fram að
þeim sama tímapunkti og skilist var við Glám á - þegar þangað er komið eru
þeir loksins leiddir saman. Glámur aðvarar Gretti með því að lemja í sundur
hvert bein í hesti þess síðarnefnda. Bóndi biður Gretti að forða sér en hann
svarar hress: „Eigi má eg minna hafa fyrir hest minn en að sjá þrælinn" ( bls.
1009). Sjálfri viðureigninni er síðan lýst á tilþrifamikinn hátt, svo sú lýsing á
engan sinn líka í íslenskum bókmenntum: fyrst sjáum við Gretti þar sem hann
situr og bíður undir feldi og sér út um höfuðsmáttina. Þá er því lýst skilmerki-
lega sem hann sér, engu er líkara en að kvikmyndavél fari um sviðið, það er hæg
hreyfing á lýsingunni, frá Gretti að setstokknum sem hann spyrnir í, þaðan að
brotnum dyraumbúnaðinum, síðan upp að þverþilinu og alls staðar er allt
brotið. Þegar lesandi hefur fengið glögga mynd af sviðinu sem er allt heldur
„óvistulegt“ heyrast dynkir. Enn fáum við ekki að sjá drauginn. Líkt og í sviðs-
lýsingunni fyrr er hreyfing á hljóðunum, þau færast nær, það er til „dyra
gengið" og þegar hurðinni er svipt upp er sjónarhornið aftur orðið Grettis, við
sjáum þrælinn fyrst núna með augum hans: „sá Grettir" og „sýndist honum“
stendur þar. Nú er búið að skapa mikla spennu, því enn hefur Glámur ekki sést
síðan hann varð draugur, þeir sem áður áttu við hann fundust aðeins. Og þegar
útlitslýsingin kemur loks rís hún undir þeirri spennu sem byggð hefur verið
upp:
Og er upp var lokið hurðunni sá Grettir að þrællinn rétti inn höfuðið og sýndist
honum afskræmilega mikið og undarlega stórskorið. Glámur fór seint og réttist upp er
hann kom inn í dyrnar. Hann gnæfaði ofarlega við rjáfrinu, snýr að skálanum og lagði
handleggina upp á þvertréið og gægðist innar yfir skálann. (bls. 1009-1010)