Skáldskaparmál - 01.01.1990, Qupperneq 116
114
Guðmundur Andri Thorsson
ára og hefur drepið kjúklinga fyrir Ásmundi föður sínum og hælist um með
vísu sem endar „enn þótt eldri finnist/ einn ber eg af sérhverri.“ Ásmundur
svarar: „Og skaltu eigi lengur af þeim bera“ - og þá segir pörupilturinn þessa
setningu: „Vinur er sá annars er ills varnar“. Hér er þannig allt með nokkru
grallarabragði eins og annars staðar í bernskulýsingum Grettis, orðskviðurinn
hefur á sér háðskan hljóm hins unga skelmis, sem er áreiðanlega ekki efst í huga
að lofa vináttu föður síns og erkifjanda. Kannski er orðskviðurinn hafður þarna
beinlínis til að dára vináttuna?
Orðskviðirnir geta gegnt ýmsu hlutverki í sögunni: þeir varpa ljósi á þann
sem talar, sýna að viðkomandi hafi visku á hraðbergi, þetta er ekki minnsti
þátturinn í persónulýsingu Grettis því þeir sýna að hann er vitur maður, orðsins
maður ekki síður en sverðsins, skáld ekki síður en vígamaður. Þeir varpa líka
ljósi á aðstæður, leggja þær út, gefa þeim hugmyndalegt inntak eða altækt gildi;
þeir geta varpað ljósi sérstaklega á örlög Grettis, lífsharm hans; þeir geta haft
spásagnargildi; þeir geta verið stílskraut; þeim er hægt að beita eins og í dæminu
hér á undan til að ljá frásögninni gamansaman svip, sem myndast við spennuna
milli hins upphafna og hátíðlega orðskviðar og rustalegrar framkomu. Þeir eru
mikilvægur þáttur sögunnar - lifandi þáttur hennar.
Dæmi Hermanns Pálssonar um rittengsl Grettlu virðast alla jafnan ekki jafn
langsótt og það sem áður var rakið, sagan vitnar um víðlesinn höfund sem víða
leitar fanga - og víðar en til kristinna latínuspekinga. Tengsl Bárðardals-
ævintýrsins, svo dæmi sé tekið, við Bjólfskviðu eru almennt viðurkennd síðan
Guðbrandur Vigfússon benti á þau, hvernig sem þeim kann annars að vera varið.
Grettir er ekki aðeins holdtekja tiltekinna skapgerðarbresta, vakinn til lífs í
sögu í því einu skyni að kenna fólki rétta hegðun og að varast ofdramb. Sagan
kann vissulega að hafa slíkt siðfræðigildi eins og Hermann Pálsson hefur dregið
fram, en það verður ekki auðveldlega slitið burt frá skáldskapargildinu og gert
að yfirgnæfandi þætti. Grettir er ekki gangandi löstur. Með öðru er hann týpa
og á sér fornar rætur:
It is/.../ apparent that Grettir’s indolent and remarkable youth, his abnormal strength,
his theriomorphic and troll-like qualities, and the slaying of a bear belong to the
traditional schema of a Heldenleben17
Þetta er niðurstaða A. Margaret Arent sem ber saman erkitýpísk einkenni og
mótíf í fornum myndum á germönskum hjálmum og peningum, Bjólfs kviðu
og Grettlu. Hún telur að þessi mótíf eigi rætur í ævafornum mýtum og helgi-
siðum. Skáld Bjólfs kviðu og höfundur Grettis sögu hafi aðgang að þessum
mótífum, þessari fornu menningararfleifð, en meðhöndli á afar ólíkan hátt, því
Grettluhöfundur sé kominn enn lengra burt frá þeim, sé þeim ekki samlifaður,
taki þau nánast að segja ekki fyllilega alvarlega. Mýtískt inntak sé á braut. Sé
þetta raunin má kannski með hæfilegri léttúð stinga upp á að Grettis saga sé
fyrsta póstmóderníska Islendinga sagan ...