Skáldskaparmál - 01.01.1990, Page 118
116
Guðmundur Andri Thorsson
hefðar, sem var orðin býsna gróin. Hann hefur á valdi sínu alls kyns brögð við
að segja sögu. Hann hefur líka sett söguna í ákveðið siðferðilegt samhengi. En
umfram allt: hann hefur samið skáldsögu.
Er þetta þá dæmisaga? Kannski í þeim skilningi að við getum hæglega dregið
af þessu ýmsar ályktanir og lærdóma um mannlegt eðli. En þó kann að vera öllu
nær að líta á sögu Grettis sem tragedíu. I sögunni er hvergi að finna áfellisdóm
yfir Gretti, hann er í alla staði aðdáunarverður maður sem vex sífellt að
mannviti og afli. Eftir bernskubrekin gerir hann ekki nokkurn þann hlut sem
ámælisverður getur talist eða siðferðilegt víti til varnaðar. Alls staðar er borið
blak af honum, aldrei er neitt honum að kenna. Grettir er svo umkomulaus
hetja að helst verður til don Kíkóta jafnað; hvort sem við lítum á skapgerð hans
í samanburði við skapgerð annarra manna í kringum hann, eða þjóðfélagslega
stöðu hans sem garps og vígamanns innan um meinleysislega bændur,
hálfmenni sem þrífst ekki meðal manna, eða tröllblending sem þrífst ekki meðal
forynja, ber allt að þeim brunni að hann er dæmdur til einsemdar og harmsaga
hans er þvílík að hann má ekki einn vera.
Þessi grein var upphaflega ritgerð skrifuð á Cand. Mag. stigi í íslensku undir handleiðslu
Vésteins Ólasonar. Hún er allmikið stytt og munar þar mestu að hér hefur verið felldur burt
heill kafli um handrit og varðveislu Grettis sögu, auk þess sem hugmyndir eldri manna, á borð
við Árna Magnússon, Guðbrand Vigfússon, R. C. Boer, Sigurð Nordal og Guðna Jónsson voru
þar raktar. Óþarft er að birta þær endursagnir hér, enda kenningar þessara manna um Grettis
sögu alþekktar. Þess má þó geta að með undantekningu Guðna Jónssonar, bera þeir brigður á
listræna heild sögunnar eins og hún er til okkar komin, telja að sé flett ofan af henni lögum
þjóðsagnaefnis og annars þesslegs sem beri úrkynjun hefðar vitni, komi í ljós meistaraverk
Sturlu Þórðarsonar.
Ég hef notast við útgáfuna: íslendinga sögur, Svart á hvítu, Reykjavík 1985, enda er þar fylgt
AM 551 A 4to nákvæmar en í öðrum útgáfum, og er vísað til blaðsíðutala í þeirri útgáfu
nokkurn veginn jafnharðan og vitnað er til sögunnar.
Tilvísanir
1 Sbr. Jón Árnason: Þjóðsögur. Leipzig 1864. II. bindi bls. 94-97.
2 Halldór Kiljan Laxness: „Eftirmáli við Grettis sögu“. Reisubókarkom. Reykjavík 1950. Bls.
84-91
3 Matthías Jochumsson: Ljóðmæli. Reykjavík 1936. Bls. 573.
4 Jón Árnason: Þjóðsögur. I. bindi bls. 146.
5 Carol J. Clover: The Medieval Saga. Cornell 1982. Bls 116-118.
6 Grunninn að þessari skiptingu er að finna í inngangi Denton Fox og Hermanns Pálssonar
að Grettis sögu. Toronto 1974. Bls. x-xiii.
7 Sbr. Óskar Halldórsson: „Tröllasaga Bárðdæla og Grettluhöfundur“. Skímir 1982. bls. 7.