Skáldskaparmál - 01.01.1990, Síða 123
Góðar sögur eða vondar
121
varga áður en bardagi hefst (2016-17, 2029-30) og einu sinni vitnar hann í
draum án þess að rekja hann (2039-40). Hann vísar til ættarfylgja sinna, sem
væntanlega hafa haft samband við hann í draumi, og hann syfjar fyrir bardaga
(2025), hefur þá líklega orðið fyrir aðsókn.5
Mörg dæmi eru um spár og viðvaranir, ein átta dæmi um spár og hugboð og
fjölmargar viðvaranir.
Með sviðsetningu er athyglinni beint að aðalpersónunni rétt fyrir örlagaríkan
atburð í lífi hennar. Andersson miðar sviðsetningu við risið en hón kemur
einnig fyrir víðar.
Ágætt dæmi um sviðslýsingu í Þórðar sögu er þegar greint er frá veðurlagi
og athöfnum fólks á Ósi daginn sem Þórður vegur Orm (2022). Það er líka
eftirtektarvert að Þórður er jafnan í friðsömum erindagerðum, sem stundum er
gerð nákvæm grein fyrir, þegar óvinir hans ráðast á hann, sbr. t.d. bardagana við
Össur þegar Þórður er á leið heim úr jólaboði (2030), kaupstaðarferð (2032) og
að ganga til hrossa (2034) þegar Össur ræðst á hann. Sviðinu er á hinn bóginn
nánast ekkert lýst þegar Þórður á frumkvæði að átökum eins og þegar Sigurður
slefa er drepinn (2009) og lokabardaginn við Ásbjörn er háður (2040).
Áttunda atriði Anderssons er að skipt sé um svið til að auka á spennu.
Þetta er oft gert í sögunni þegar andstæðingar eru að nálgast hvor annan áður
en skerst í odda með þeim. Nefna má Borgarfjarðarförina (2017-18), viður-
eignina við Indriða (2024-26), fyrstu og þriðju fyrirsát Össurar (2029-30 og
2033-34), bardaga Þórðar við Ásbjörn og Skeggja (2038 og 2039—40) og loks
einvígið við Sörla (2042).
Þegar Þórður berst við Indriða á Vatnsskarði er fyrst sagt frá því að Indriði
býst til að ríða vestur í Miðfjörð úr Kolbeinsárósi og lýst vopnabúnaði hans. Þá
er sagt frá því að Þórður er á leið norður í Skagafjörð í fylgd Einars í Engihlíð,
og að Indriði ríður vestur að Vatnsskarði. Síðan er vikið aftur til Þórðar og
Einars, sagt frá viðræðum þeirra þegar þeir sjá til Indriða og Þórður kveður
vísu. Loks koma svo orðaskipti Þórðar og Indriða og bardagalýsingin.
Sömu sögu er að segja af fyrirsát Ásbjarnar og Skeggja á heiðinni. Fyrst er
sagt frá því að Þórður fer til Borgarfjarðar og næst að þeir Skeggi búast í
fyrirsát. Þá er vikið að athöfnum Eiðs. Næst segir af Þórði, að þeir félagar sjá
fyrirsátina og rakið samtal hans og manna hans. Loks slær í bardaga og þegar
hann stendur sem hæst kemur Eiður á vettvang og gengur á milli.
Höfundur Þórðar sögu kann að magna upp spennu með þessum hætti og
gerir það með nákvæmlega sama hætti og í klassísku sögunum.
Níunda atriði Anderssons eru eftirmæli eftir fallna hetju.
Lítið er um slíkt í sögunni, nema ef telja skyldi ummælin um Sörla fallinn:
„... þótti að honum hinn mesti skaði“ (2043).