Skáldskaparmál - 01.01.1990, Side 133
Göngu-Hrólfur á galeiðunni
VIÐAR HREINSSON
Göngu-Hrólfur Sturlaugsson bar í æsku nokkur einkenni kolbíts, eins og
margar merkar hetjur af þeirri manngerð sem gjarnan er kennd við Gretti.1
Hann bar ófimlega fyrir sig vopn og var meinlaus og gagnlaus flestum mönn-
um. Það virtist ætla að rætast úr honum og hann sýndi loks nokkurn metnaðar-
vott þegar Sturlaugur líkti honum við konu, hvatti hann til að ná sér í kerlingu
og gerast kotkarl í afdal. Þá fyrtist strákur við, afneitaði konum, brá karlinum
um nísku, gerði lítið úr ríki hans og sagðist fara og ekki koma aftur fyrr en hann
hefði fengið jafnmikið ríki og faðir hans og liggja dauður ella. Þá kvað við
annan tón hjá Sturlaugi og orðaskipti þeirra héldu svo áfram:
Sturlaugur mælti: „Bæði má ég fá þér skip og góða fardrengi, ef þú vilt nokkuð það
fyrir þig leggja, er þér megi til frægðar verða eða metnaðar.“
Hrólfur segir: „Eigi hirði ég að draga menn eftir mér, tilþess að þeir sjái ofsjónum
yfir mér. Mun ég ekki orustu heyja, þvíað ég þori eigi mannshlóð að sjá. Vil ég og eigi
þyrpast út á smábáta með margt fólk, svo að þá sökkvi þeir niður og drukknum vér
a 11 i r. “
Sturlaugur mælti: „Ekki mun ég leggja til með þér, því að ég sé, að þú ert bæði
heimskur og einráður.“
Skildu þeir að svo mæltu. Þótti sinn veg hvorum.^
Kolbítsmanngerðin er notuð til að tjá tvíræðni eða togstreitu, sem birtist í
andstöðu sérvitrings gegn umhverfi sínu og væntingum þess. Það sem Hrólfur
andæfir í raun, er kröfur hefðarinnar til hetjunnar, hann þrjóskast við að vera
settur á skip sem galeiðuþræll hefðarinnar. Þetta andóf er aldrei langt undan, þó
Hrólfur uppfylli með tímanum flestar þær kröfur sem gerðar eru til hefð-
bundinnar hetju. Hrólfur stakk af án þess að nokkur vissi fáum dögum eftir
þetta samtal, aðeins vopnaður eikarkylfu og með tvær galdri magnaðar hlífðar-
kápur sem faðir hans hafði átt. Skömmu síðar, þegar Hrólfur er á skipi Jólgeirs
berserks, afneitar hann víkingasiðum og gerir ekki handtak um borð, er hvorki
með í ránum, bardögum né öðrum mannraunum. Hins vegar drap hann Jólgeir
og vann skipið síðar, en hann framkvæmdi hlutina eftir sínu höfði.
Fornaldarsögur Norðurlanda, einkum þær sem kallaðar eru ævintýrasögur,
falla í föstum farvegum persónusköpunar, stíls og atburðarásar. Yfirleitt eru þær
SKÁLDSKAPARMÁL 1 (1990)
131