Skáldskaparmál - 01.01.1990, Síða 135
Göngu-Hrólfur á galeiðunni
133
í framandi tíma og rúmi. Það getur boðið upp á bæði vélrænar hefðir og frjóa
skáldskaparmöguleika. Hitt atriðið er í framhaldi af þessu, það mætti kalla
bókmenntastig. Eftir því sem rithefðir verða grónari, því sjálfstæðari verða
bókmenntirnar gagnvart veruleikanum og fara að lifa eigin lífi, eftir eigin
lögmálum. Það er samþætting fjarlægðar og bókmenntahefðar sem ég ætla að
athuga í Göngu-Hrólfs sögu, hvernig höfundur fer með þessi atriði á með-
vitaðan hátt.
Göngu-Hrólfs saga byggir í ríkum mæli á bókmenntalegri vitund, sem gerir
það að verkum að veruleikatengsl hennar eru afar óbein. Hún er skemmtisaga,
á spássíu í einu handriti hennar er krotað að hana sé „gott að iðka, því hún er
með mörgum nytsamlegum dæmum og gamansömum frásögnum.“n
Miðað við flestar aðrar íslenskar fornsögur er hún tæknilega flókin, en
gengur þó upp. Stíllinn er agaður og samsvarar hnitmiðuðum efnistökum og
sögusniði. Hún er ein af fáum sögum sem flétta saman fleiri efnisþræði sem
gerast samtímis. I upphafi eru fjórir þræðir sem brátt mætast í samfelldum vef.
Fyrst eru kynnt sú fagra og hárprúða prinsessa Ingigerður og Hreggviður faðir
hennar í Garðaríki, og því næst sækonungurinn Eiríkur af Gestrekalandi og
djöflagengi hans með Grím ægi í fararbroddi, þeir drepa Hreggvið fljótlega og
halda Ingigerði fanginni, Síðan er Hrólfur Sturlaugsson kynntur til sögunnar,
og loks Þorgnýr jarl af Jótlandi, Stefnir sonur hans, dóttirin Þóra og Björn ráð-
gjafi. Hrólfur kemur til hirðar Þorgnýs og verður félagi Stefnis. Þegar þessir
þræðir eru kynntir til sögu, þá er framhaldið nokkuð ljóst, menn vita á hverju
má eiga von í aðalatriðum. Með skilmálum Ingigerðar, þegar Eiríkur hefur
drepið föður hennar, er flétta sögunnar komin í hnotskurn. Ingigerður lætur
heygja föður sinn virðulega og má ráða fjórðungi ríkisins í þrjú ár og fær á
hverju ári mann til burtreiðar við Eirík eða Sörkvi kappa hans, þannig er haldið
opnum möguleika á frelsun hennar. Það verður vitaskuld hlutskipti Hrólfs, en
hið hefðbundna ferli rómönsunnar er ögn flækt, því Hreggviður brá sér í
svölulíki og flutti hár af af Ingigerði til Þorgnýs, sem var gamall, elliær ekkju-
maður, sem strengdi þess heit að eignast þá stúlku sem hárið var af. Hann
þjónar þá því hlutverki að senda Hrólf af stað, því hugur Hrólfs stóð ekki til
kvenna. Síðan kemur þrjóturinn Vilhjálmur til sögunnar og spillir á ýmsa vegu
fyrir Hrólfi, en á Jótlandi gerir dvergurinn Möndull margan óskunda áður en
Hrólfur nær honum á sitt vald og lætur hjálpa sér. Hrólfur frelsar Ingigerði og
fer síðan með með her gegn illþýðinu og sigrar það og að endingu þarf hann að
fara í herferð fyrir vini sína til Englands, til að fylla upp í giftingarkvóta. Hrólfi
er fleytt áreynslulaust í gegnum allar þrengingar og ekkert er sparað af þeim
töframeðulum sem yfirleitt eru notuð í svona sögum.
Það má skoða þáttunina, flókinn söguþráð og tiltölulega margar persónur
sem frávik, sem drepa meðvitað á dreif hinu staðlaða og hefðbundna. Það er þó
ekki á kostnað hraða og spennu, heldur þvert á móti, frásagnarhraðinn er
breytilegur og með útúrdúrum til að auka spennuna. Til dæmis þegar Hrólfur