Skáldskaparmál - 01.01.1990, Side 136
134
Viðar Hreinsson
er á heimleið með Ingigerði, þá tekst Vilhjálmi að leika á hann og höggva undan
honum lappirnar, samtímis því að Möndull hefur allt á valdi sínu á Jótlandi. Þá
er skipt á milli sviða, Hrólfur er skilinn eftir, stunginn svefnþorni og fótalaus,
en Vilhjálmi og Ingigerði er fylgt til Jótlands. Hrólfi tekst vitaskuld að bjarga
málunum, hann nær valdi yfir Möndli dverg, sem græðir undir hann fæturna.
Lipur beiting sjónarhorns er meðal helstu frásagnarbragða. Sem dæmi má
taka þegar Hrólfur kemur til hirðar Þorgnýs jarls. Eftir að Þorgnýr er kynntur,
kemur nokkuð langur kafli þar sem Hrólfur vann sér fé og forræði, en í lok
kaflans fylgir sagan þeim til Danmerkur:
Þeir komu síð um haust til Jótlands, skammt frá borg Þorgnýs jarls, og lögðu í einn
leynivog, festu skip sitt og tjölduðu.
Hrólfur segir sínum mönnum, að þeir skyldi bíða þar, til þess er hann kæmi aftur,
- „en ég mun ganga einn frá skipi að sjá, hvað í gerist.“12
Hér er skipt um sjónarhorn, til að skapa meiri spennu í frásögnina, þó enginn
velkist í vafa um við hvern er átt, en einnig skerpir þessi lýsing mynd Hrólfs og
skiptingin sýnir sterka sjálfsvitund sögunnar sem heldur svo áfram:
Svo er sagt einn dag, að það bar við í Jótlandi, er Þorgnýr sat yfir drykkjuborðum,
að upp lukust hallardyr og maður gekk inn í höllina. Hann var bæði digur og hár.
Hann var í loðkápu síðri og mikið spjót í hendi. Allir þeir, er inni voru, undruðust
mikilleik hans. Hann gekk fyrir jarl og kvaddi hann virðulega. Jarl tók kveðju hans
og spurði, hvað manna hann væri.
Hann segir: „Hrólfur heiti ég, en Sturlaugur heitir faðir minn ...“ ^
Annað dæmi um markvissa beitingu sjónarhorns er að yfirsýn sögumanns er
breytileg. Hann fylgir ýmist Hrólfi og sjónarhorni hans, eða sér hann utanfrá
eins og aðrar persónur. Það er til dæmis gert þegar hann þjónar þrjótnum
Vilhjálmi, við hirð Eiríks konungs, þá er Hrólfi þokað til hliðar, til að láta
Vilhjálm og gaspur hans njóta sín. Sögumaður nálgast og fjarlægist sögusviðið
eftir þörfum, kemur sér fyrir á meðal persóna eða fyrir ofan.
Þessi atriði dýpka atburðarásina og gæða hana spennu og lífi. Mörg fleiri
atriði en hin ytri atburðakeðja binda hana saman sem eina heild fulla af þeim
andstæðum og þversögnum sem eru aðal góðra sagna.14 Vald sögumanns yfir
efninu gerir söguna að öðru og meiru en fléttuðu ævintýri. Mikilvægust þessara
atriða eru annars vegar hlutverkaskipan og persónusköpun, einkum persóna
Hrólfs, sem felur í sér andstæðu milli hetju og samfélags, og hins vegar skop
sögunnar og leikgleði, hneigð til að snúa blygðunarlaust út úr hefðbundnum
klisjum, líflegar sviðsetningar og hraði í atburðarás.
Heimur sögunnar er heimur athafna, hraðra og stórra eins og hefðin gerir
ráð fyrir. Fornaldarsögurnar einkennast af einföldu siðrænu ívafi, baráttu góðs
og ills, sem oft fær svip af baráttu milli mannfélags og óbeislaðrar, ógnandi