Skáldskaparmál - 01.01.1990, Side 137
Göngu-Hrólfur á galeiðunni
135
náttúru. Persónur og atburðir eru vegin á þessar vogir fyrst og fremst, en ekkert
er þó leyft sem gæti verið dragbítur á frásögnina. Göngu-Hrólfs saga er
skemmtisaga með nytsamlegum dæmum og ekkert á ytra borði fram yfir það.
Þess er vandlega gætt að hleypa ekki að neinni tragískri dramatík. Grímur ægir er
drepinn áður en hann nær að bölva Hrólfi og félögum í sand og ösku, andstætt
Glámi í Grettlu, sem fór illa með Gretti.15 Lýsingar sagnanna á glímunni við
þessar ófreskjur eru keimlíkar. Hreggviður haugbúi gefur Hrólfi eitthvert
meðalasull eða galdradrykk til að forða því að þeir félagar Hrólfur og Stefnir fari
að slást um Ingigerði. Það hefði annars verið efni í fínustu tragedíu.
Séu persónurnar skoðaðar nánar í tengslum við heim sögunnar, kemur í ljós
að siðferðisinntakið er ekki einhlítt. Hrólfur villir í upphafi á sér heimildir, hann
er ekki sá kolbítsaumingi sem hann þykist vera. Þótt hann segist ekki þora
mannsblóð að sjá, þá var annað uppi í orrustum, þar sem hann var iðulega blóð-
ugur upp að öxlum eins og önnur hver hetja. Þó heldur hann persónuein-
kennum sínum, hann er alla söguna hlédrægur og heiðarlegur og vill láta verkin
tala og minnir að þessu leyti á Gretti. Allan þann tíma sem hann er þjónn Vil-
hjálms er leikið með einmitt þetta atriði, samræmi og misræmi orða, gerða og
eiginleika hjá Hrólfi og Vilhjálmi. Síðar er gefin óvenjuleg sálfræðileg skýring
á framferði Vilhjálms, þegar hann segir sögu sína, hann átti nefnilega erfiða
æsku. Þrátt fyrir þá afsökun var hann hengdur á hæsta gálga. Leikur með eig-
indir persóna og það að villa á sér heimildir er víða áberandi í sögunni. Bræð-
urnir Hrafn og Krákur voru dulbúnir, þó engum lesanda dyljist að þeir voru
landflótta konungssynir. Möndull Pattason kom dulbúinn til hirðar jarls og gat
dregið menn á asnaeyrunum og auk þess skipt um ham eftir þörfum. Hann
breyttist úr fjanda í samherja, það skeður oft í fornaldarsögum, en er sjaldan
útfært jafn ítarlega og í Göngu-Hrólfs sögu. Dvergar eru göldrótt náttúrufyrir-
bæri, og ef Grímur ægir er skoðaður sem fulltrúi fjandsamlegra náttúruafla, þá
bjó Möndull yfir þeim eigindum sem þurftu, til að sigrast á Grími. Grímur ægir,
sem sameinar mann og máttug náttúruöfl og býr að nokkru yfir fornum goð-
sagnaeigindum, er hinsvegar ekkert annað en eitthvert drasl fundið í fjöru, enda
er honum og kumpánum hans iðulega lýst með háðskum hálfkæringi. Þeir voru
alltaf að kljást við tröll ofan úr Jötunheimum og um það er farið háðulegum
orðum:
Þeir Þórður Hlérseyjarskalli áttu jafnan mikið stríð við þá ofan úr Jötunheima-
byggðinni frá Aluborg, og er það margra frásagna vert, er þeir áttust við í göldrum
og fjölkynngi og stórum orustum, og veitti ýmsum verr, en hvorugum betur.16
Tvíræðar eigindir persóna gera siðferðisinntak sögunnar afstætt. Góðar hetjur
eru broslegar eða draga hetjuímyndina í efa og hinir vondu hafa afsökun, snúast
til betri vegar eða eru skoplegir. Með þessari tilvitnun, sem sýnir háðska afstöðu
til þessara dólga erum við einmitt komin að hinu meginatriðinu sem heldur
sögunni saman sem lifandi heild, þ.e. skopinu og leikgleðinni. Höfundur