Skáldskaparmál - 01.01.1990, Page 138
136
Viðar Hreinsson
Göngu-Hrólfs sögu veldur svo vel efnivið sínum og hefðinni að baki, að hann
losar sig undan viðjum þessara þátta, leikur þess í stað með þá og nýtir þá
möguleika sem liggja bæði í hefðinni og heimi sögunnar. Sagan vísar ekki
einungis til þess heims sem lýst er, heldur einnig til sagnahefðarinnar, óbeint en
meðvitað. Því verður sögusniðið að nokkru tilbúið og flókið, og þá kemur
miðlunin óðara í ljós, sýnt er að einhver þrjótur hefur skotið sér á milli efnis og
verks, skyldur þessum plús X sem Laxness talaði um.17
Það er þessi þrjótur sem gerir grín að öllu saman, leikur sér með það eða
jafnvel gagnrýnir. Forsendan fyrir þessu háði er bókmenntaleg, viðfangsefni
háðsins er hefðin og klisjurnar, frekar en sá heimur eða veruleiki sem lýst er á
yfirborðinu. Leikur eða leikgleði sögunnar er til staðar frá fyrstu síðu til hinnar
síðustu. Mannlýsingar, umhverfislýsingar og bardagalýsingar eru stolnar héðan
og þaðan og notaðar í ýktri mynd. Spunnið er utan um þá möguleika sem fyrir
hendi eru, þannig að vitundin um klifun og eftiröpun er alltaf til staðar. Lýsing
Ingigerðar konungsdóttur sýnir þetta með því einfaldlega að vísa í hefðbundna
prinsessuímynd. Lýsingarnar á hesti, vopnum og herklæðum Hreggviðs og á
hyski Eiríks konungs, eru ekki málskrúðugar, heldur hnitmiðaðar, skýrar og
líflegar vegna þess að ótal lýsingar af því tagi eru til. Öll möguleg brögð eru
notuð, lífsteinar og fótaágræðsla, dvergur sem ferðast bæði ofan jarðar og
neðan. Ykjurnar eru jafnvel enn yfirgengilegri en í öðrum sögum, en leikurinn
felst meðal annars í því að lýsingarnar eru í hófstilltum stíl. Gott dæmi er kápur
Hrólfs, sem hlífðu honum við öllu hugsanlegu. Ein kápa úr Sturlaugs sögu
starfsama18 er hér orðin að tveim og þær eru skoplegt leiðarminni eða klisja,
þegar þær hlífa honum. Hlutverk þeirra, eins og annarra töfragripa er einfald-
lega að tryggja fjörið. Spennan í sögum af þessu tagi byggist á hraðri atburðarás
frekar en óvissu um örlög hetjanna.
Hámark frásagnargleðinnar í Göngu-Hrólfs sögu er í bardagalýsingum, þar
sem djöfulgangur og hugarflug eru yfirgengileg, en líða áfram í léttum stíl þar
sem allt þetta heyrir til sjálfsagðra hluta. Bardagalýsingin er ein hin lengsta í
nokkurri fornsögu, fjörlega skrifuð og hröð, með snöggum skiptingum og
yfirsýn sem sameinar stórt og smátt, framgöngu einstakra manna og heildar-
framvindu. Hollur lestur fyrir íþróttafréttamenn, því lýsingarnar sýna hvernig
hægt er að segja líflega frá því sem í eðli sínu er klisja.19 Lítum t.d. á stutt atriði
frá fyrsta degi lokaorrustunnar:
Nú sér Hrólfur skaða þann, er Röndólfur gerir á liði hans og sér að eigi muni svo
búið hlýða. Hann hleypur af baki Dúlcifal og veður á móti Röndólfi. En er þeir
mætast, þá lýstur Röndólfur til Hrólfs með járnkylfunni, en hann veik sér undan og
treysti eigi að standa undir svo þungu höggi. Kylfan kom á tvo menn, er staðið höfðu
á baki Hrólfs og lamdist hvert bein í þeim. Hrólfur slæmdi sverðinu á hönd Röndólfs
og tók af í úlfliðnum og allar tær af öðrum fæti. Röndólfur reiddi upp stöngina með
annari hendi og laust til Hrólfs af öllu afli. Kylfan kom í jörðina og sökk til miðs, en
Hrólf sakaði ekki. Hjó Hrólfur þá af Röndólfi aðra höndina, svo að hún féll niður.
Sneri hann þá undan. Hann veifaði stúfunum og öskraði sem griðungur. I því heggur