Skáldskaparmál - 01.01.1990, Side 140
138
Viðar Hreinsson
Göngu-Hrólfs sögu og takast jafnvel á, Annars vegar er margræðni persónu-
sköpunar, til dæmis gagnrýnin sérviska Hrólfs og hlédrægni hans. Hins vegar
er hinn gáskafulli leikur með efni og form, sem smátt og smátt nær yfir-
höndinni, svo Hrólfur samsamast efninu nauðugur viljugur og andóf hans og
efahyggja gufa upp í lokin. Frásagnargleðin hefur yfirbugað andófið í loka-
veislu sögunnar.24 En þrátt fyrir það birtir sagan lifandi heim, sem er miklu
margræðari en nokkur steinrunnin hefð eða siðaboðskapur getur verið.
Sögur á borð við Göngu-Hrólfs sögu eru nokkuð fjarri daglegu lífi fólks. En
nálægð eða raunsæi er enginn mælikvarði á gæði, slíkir þættir eru háðir ýmsum
sögulegum og bókmenntasögulegum skilyrðum. Forsendur sagnagerðar eru
gerbreyttar þegar komið er fram á 14. öld. Þá eru sögur orðnar bókmenntalegar
í orðsins fyllstu merkingu þegar þær taka mið af mótuðum hefðum og öðrum
sögum. Þá skírskota þær aðeins óbeint til samtíðar sinnar. Jónas Kristjánsson
hafði orð á því í bókmenntasögu sinni, að á 14. öld væru bókmenntirnar farnar
að lifa sínu eigin lífi.25 Þar hitti hann naglann á höfuðið, þó athugasemdin hafi
fjallað um þá margfrægu firringu og hnignun sagnaritunar þegar höfundar stálu
hver frá öðrum (það var nú ekkert nýtt) og meginflokkar sagna blönduðust
meira en áður.
Með þessu er þó aðeins hálf sagan sögð. Bókmenntaleg blöndun er holl og
þroskandi og hún var til staðar frá upphafi íslenskrar bókmenntasögu.26 Engum
dettur lengur í hug að halda því fram að Islendingasögur séu aðeins sprottnar af
einum meiði. Samhæfing ólíkra þátta í eina heild er megininntak frásagnarlistar
á öllum tímum og því dýpri andstæður, því þróttmeiri sögur. Skylt þessu er
annað atriði, ekki ómerkara. Menn höfðu fengist við ritaðar sögur og ritun sagna
í nærri 200 ár þegar Göngu-Hrólfs saga var skrifuð, um 1350 eða síðar. Forn-
aldarsögur í a.m.k. 100 ár. Það eru því allar forsendur fyrir því að sjálf miðlunin,
meðvitað hlutverk söguhöfundar, sé farin að skipa stóran sess, hlutverk höf-
undar eða sögumanns verði áberandi. Þar með verða mímetísk veruleikatengsl í
senn flóknari, fjarlægari og úthugsaðri.
Lítum á hinar klassísku 13. aldar Islendingasögur til samanburðar. Flestar
þeirra eru, líkt og flest veraldleg sagnarit, afsprengi eins konar veruleika-
skipulagningar, hugmyndafræðilegs og menningarlegs landnáms. Þar hefur
efnið forgang. Sagnamenn voru „hlutlausir“ skrásetjarar, miðlar sem endur-
gerðu í sögum fortíð, samtíð og jafnvel framtíð, með fulltingi tiltækra gagna og
aðferða. Þegar rithefðin mótaðist fóru menn brátt að nýta sér möguleika
formsins og hefðarinnar til þess að koma öðru á framfæri. Fóstbræðra saga
gerði grín að hetjudýrkun27 og Bandamanna saga er að flestra dómi félagsleg
satíra. Þar er hlutunum snúið við, formið eða hefðin eru orðin að tækjum
höfunda. Grettla tekur t.d. sagnhefðina beinlínis til meðferðar og stefnir henni
gegn bændasamfélaginu. Þetta á við um mikið af sagnagerð 14. aldar og á sér
reyndar samsvörun í því þegar gerðar voru stórar bækur þar sem menn tóku
upp eldri verk og breyttu inntaki þeirra með því að setja þau í annað samhengi.