Skáldskaparmál - 01.01.1990, Blaðsíða 141
Göngu-Hrólfur á galeiðunni
139
í báðum tilvikum er sagnagerðin komin skrefi lengra frá þeirri endurgerð
fortíðar í frásögnum, sem einkennt hafði eldri sögur.
Þegar tengsl sögu og veruleika eru orðin fjarlægari gefur auga leið að reynsla
manna fer ekki óbrengluð inn í sögurnar, þær túlka enga beina reynslu, nema þá
helst reynsluna af sjálfum sögunum. Sumar sögur gagnrýna einmitt sjálfa
hefðina og leika sér með möguleika hennar. Aðrar sögur spegla ljóslega eigið
bændasamfélag eins og Ketils saga hængs. Að túlka samspil hefðar, sagna og
samtíðar byggist á viðtökurannsóknum sem eru skammt á veg komnar. En
Göngu-Hrólfs saga og fleiri líflegar fornaldarsögur þurfa svo sem ekki aðra
réttlætingu en gamansemina. Benedikt Gröndal sagði að þær væru „einmitt
verulegur skáldskapur, einhver hinn fegursti hugmynda- eða ímyndunar-
skáldskapur, sem framinn hefur verið hvar sem leitað er.“28 Hann skrifaði
sjálfur svona sögur, til dæmis Heljarslóðarorrustu, sem varla væri eins og hún
er ef ekki væri Göngu-Hrólfs saga. Reyndar gerði höfundur hennar svipað og
Benedikt, hann nýtti þá möguleika sem felast í ákveðinni tegund frásagnarlistar.
Það er kannski mergurinn málsins, góðar sögur réttlæta sig sjálfar með því að
breiða út víðlenda og margræða heima. Göngu-Hrólfs saga, Grettla og margar
fleiri sögur eru til vitnis um að 14. öldin var mikið blómaskeið í sagnagerð, þar
sem sjálf sagnalistin var mikilvægur áhrifaþáttur, en þó hlýtur hin endanlega
skírskotun að vera til eigin samtíma og komandi tíma. Því mætti skoða tvíbent
lokaorð Göngu-Hrólfs sögu sem vegsömun sagnalistarinnar, en um leið er þar
nokkur broddur sem beint er gegn þeim sem ekki kunna að meta hana. Það
getur verið vitnisburður um menningarástand samtímans: „Hafi hver þökk, er
hlýðir og sér gerir skemmtan af, en hinir ógleði, er angrast við og ekki verður
að gamni. Amen.“29
Fyrirlesturinn er að nokkru soðinn upp úr einum kafla lokaritgerðar minnar til mag. art. prófs
í bókmenntafræðum frá Kaupmannahafnarháskóla, Alle tiders historier. Undersögelser i
oldislandsk fortællekunst. 1989. Eintak af ritgerðinni er til á Árnastofnun í Reykjavík.
Tilvísanir
1 Skipting hetja fornsagnanna í tvo flokka eftir innraeti og útliti er mótuð af Lars Lönnroth,
í bókinni Njáls saga. A Critical Introduction. Berkeley 1976, bls. 61 og áfram. Hinar fríðu
og gæflyndu hetjur eru þar kenndar við Sigurð Fáfnisbana, en hinar ófríðu og uppreisnar-
gjörnu hetjur eru kenndar við Gretti. Bæði Grettir sjálfur og manngerðin sem við hann er
kennd eru þó flóknari og margræðari en svo, að einhlítt sé að rígbinda sig við þessa flokkun.
Guðrún Bjartmarsdóttir beitti þessari skiptingu á nokkrar af fornaldarsögunum í greininni
„Hlutverkaskipun í Fornaldarsögum Norðurlanda", Mímir 27, 1979, bls. 34-43.
2 Ég vitna í Göngu-Hrólfs sögu í fjögra binda prentun Guðna Jónssonar frá 1950, III bindi,
en færi textann þó til nútímastafsetningar. Guðni tók upp texta Rafns frá 1830, sem er eina