Skáldskaparmál - 01.01.1990, Qupperneq 147
Landafræði og flokkun fornsagna
145
þær frá sögum sem gerast nær ritunartíma þeirra, svo sem sögurnar í Sturlungu-
safninu, biskupasögur og nokkrar konungasögur.
Það er svo sem ekkert óeðlilegt að menn riti öðruvísi um atburði því fjar-
lægari sem þeir eru reynslu þeirra. Samt sem áður hefur þessi flokkun eftir fjar-
lægð milli sögutíma og ritunartíma þann ókost að gefa kenningum um ein-
þættan sannleik og ómeðvitaðan höfundarskap byr undir vængi. Eins og flest-
um er kunnugt, setti rússneski fræðimaðurinn M.I. Steblin-Kamenskij6 fram
þessar kenningar fyrir nokkrum árum og hafa þær síðan verið nokkuð til
umræðu, síðast mér vitanlega í doktorsriti Sverris Tómassonar, Formálar
íslenskra sagnaritara á miðöldum, sem kom út á síðasta ári7.
Hugmyndir Steblin-Kamenskijs um að höfundar fornsagnanna hafi ekki
gert greinarmun á listrænum og almennum sannleik falla nokkuð vel að tíma-
flokkun Sigurðar Nordals. Eftir því sem fjarlægðin óx milli sagnaritaranna og
atburðanna fóru þeir að skrifa á annan hátt og gagnrýni þeirra á því sem þeir
greindu frá að dofna, hversu ótrúlegt sem það kunni annars að vera.
Gallinn við þessa kenningu er að hún gagnast ekki til að skýra hvers vegna
Ynglinga saga er ólík fornaldarsögum Norðurlanda, þó hún fjalli um sama efni
og þær, þ.e. fornkonunga Norðurlanda. Hvers vegna ritaði Snorri ekki forn-
aldarsögu, þegar hann tók sér fyrir hendur að skrá sögu forsögulegra konunga?
Eitthvað annað hlýtur að stjórna því að Ynglinga saga er svona ólík öðrum
forneskjusögum, og hlýtur það að tengjast viðhorfum höfundanna til efnisins,
svo notað sé orðalag Sverris í fyrrnefndu riti hans. Eins og þar kemur fram,
gerðu íslenskir sagnaritarar skýran greinarmun á því hvort þeir voru að skrifa
sagnfræði eða sögu til skemmtunar (sem einnig gat verið uppbyggileg). Þess
vegna getur fjarlægð milli sögutíma og ritunartíma alls ekki orðið eini
grundvöllurinn undir flokkun fornsagna, heldur verður að leita að öðrum
þáttum, ef viðunandi árangur á að nást.
Rannsókn Sverris leiðir í ljós að veigamikill þáttur, sem leiðbeint getur um
flokkun sagnanna er „söguhátturinn“, en þetta orð er notað í formála Þiðreks
sögu. Söguhátturinn stjórnast af viðhorfum höfundar til efnisins. Það er „annar
söguháttur (...) að segja frá nokkurs konar örskiptum eður frá kynslum eður
undrum“ segir þar8. Með öðrum orðum þá er sagt á annan hátt frá ótrúverð-
ugum atburðum en trúverðugum. Sagnfræði og skáldskapur eru ólíkar tegundir
og sannleikurinn því ekki einþættur, eins og Steblin-Kamenskij vill hafa hann.
Hugtakið „söguháttur“ er mjög gagnlegt til að skilja milli ýkjusagna og
annarra sagna, enda er orðið „lygisaga“ eitt af fáum tegundarhugtökum sem
íslenskir sagnaritarar á miðöldum nota. Hins vegar eru ekki formálar að Islend-
ingasögum, eins og Sverrir bendir á, og því erfitt um vik að átta sig á viðhorfum
höfundanna til þeirra, þ.e. undir hvaða söguhætti, þær voru ritaðar.
Þvert á þær flokkunaraðferðir sem nefndar hafa verið hingað til, gengur sú
viðleitni, sem áberandi hefur verið á síðari árum, að leita að formgerðarþáttum
sem stýrt gætu flokkun fornsagnanna. Ef bygging þeirra er skoðuð, kemur í ljós
að sögur innan sama hefðbundins flokks geta verið býsna ólíkar. Þannig er
10