Skáldskaparmál - 01.01.1990, Síða 156
154
Torfi H. Tulinius
Bjarnar sögu Hítdælakappa og Eyrbyggju, en Ursula Dronke gerði fyrir
nokkrum árum tilraun til að skýra þessar sögur með tilliti til nokkurra vísuorða
úr Rígsþulu21. Frásagnarmynstrin geta einnig verið sótt í dæmisöguhefð
miðalda, eins og Bjarni Guðnason22 hefur bent á nýlega varðandi Heiðarvíga
sögu. Eins geta frásagnarmynstrin verið sótt í rómönsuhefðina, eins og mér
hefur vonandi tekist að sýna fram á um Víglundar sögu.
Þessi nálgun á íslensku bókmenntakerfi á miðöldum er gagnleg til skilnings
á hlutverki landafræðinnar í sögunum og tengslum hennar við flokkun þeirra.
Hlutverk landafræðinnar var að opna eins konar glugga yfir í aðra skáldheima,
heima annarra bókmenntategunda. Þessir gluggar þjónuðu þá því hlutverki að
vera „mögulegir heimar“ í anda Ecos og höfðu áhrif á túlkun njótandans á þeim
veruleika sem verið var að lýsa í sögunum.
Ég er nú kominn að leiðarlokum og langar til að víkja aftur að Víglundar
sögu og tveimur sagnanna sem ég nefndi í upphafi, Njálu og Grettlu. Það eru
svo margar ástæður fyrir því að þessar sögur eru miklu meiri og merkilegri
bókmenntaverk en Víglundar saga, að það má virðast óþarfi að benda á eina til
viðbótar, en þar sem hún tengist breytingum á sögusviði og tilfærslum á
sagnamynstrum get ég ekki látið hjá líða að nefna hana.
Víglundar saga hefur ekki notið mikillar virðingar sem íslendinga saga. Á
einhvern hátt er lesendum þeirra misboðið með þessari sögu. Má vera að það sé
vegna þess að það þarf að fara í kringum hefndarlögmálið, sem svo ríkt er í
íslendinga sögum, til þess að hin rómantíska ást milli Víglundar og Ketilríðar
geti sigrað öll þau ljón, sem á vegi hennar verða. Ketilríður gengur að eiga
bróðurbana sinn og faðir hennar leggur blessun sína yfir hjónabandið. Höfund-
urinn brýtur því eitt af tegundarlögmálum Islendinga sagnanna, sem auk þess
stóð föstum fótum í íslenskum raunveruleika. Formgerð rómönsunnar fær að
vera raunveruleikanum yfirsterkari.
Gunnar frá Hlíðarenda fer til Norðurlanda. í Danaveldi á hann þess kost að
ganga að eiga Bergljótu frænku konungs og þiggja af honum ríki. Hann af-
þakkar og fer heim til frænda sinna þar sem hans bíða þau örlög sem öllum eru
kunn. Grettir er kolbítur í æsku, eins og forfeður hans og frændur, Hrafnistu-
menn. Eins og þeir, rís Grettir úr öskustónni og verður öllum öðrum sterkari.
Eins og þeir, er hann manna hæfastur til að yfirbuga illar vættir, og vinna að því
leyti samferðafólki sínu gagn. En ólíkt frændum sínum úr Hrafnistu verður það
ólán Grettis að lifa í samfélagi þar sem lítið rúm er fyrir hans líka. Dramatíski
kraftur sagnanna beggja verður að hluta til við það að í stutta stund fá persónur
þeirra að stíga út úr raunheiminum inn í heim skáldskaparins, en er síðan vísað
aftur inn í raunheiminn. Ólíkt því sem á sér stað í Víglundar sögu, þá er
raunveruleikinn sterkari en ævintýrið.
Til að draga saman að lokum hið helsta sem ég hef lært á þessu ferðalagi mínu
um lönd og flokkunarkerfi fornsagnanna, skal nú aftur vikið að spurningunum
sem settar voru fram í upphafi. í fyrsta lagi var spurt hvaða hlutverki landa-