Skáldskaparmál - 01.01.1990, Síða 159
Þögnin mikla
Hugleiðingar um riddarasögur og stöðu þeirra í
íslenskum bókmenntum
MATTHEW JAMES DRISCOLL
1.
Einu sinni þegar ég var á leiðinni til Islands með Smyrli gamla, kynntist ég
lítillega þýskri konu, frá Hamborg að mig minnir, sem var að fara til Islands í
fyrsta sinn. Hún hafði bílinn sinn með sér og ætlaði að keyra umhverfis landið
og sjá allt sem hægt var að sjá. Eins og við mætti búast af Þjóðverja var þessi
kona mjög vel undirbúin, vissi bókstaflega allt um Island, enda sagðist hún hafa
verið að skipuleggja ferðina í mörg ár. Eitt fannst henni þó mjög miður. Það var
að, eftir því sem henni skildist, væri ekki hægt að keyra í kringum landið án
þess að fara í gegnum Reykjavík. Ef satt væri, sagðist hún ákveðin í að keyra
eins hratt og hún gæti í gegnum borgina, og helst með lokuð augun.
Mér hefur oft orðið hugsað til þessarar konu í íslenskunámi mínu við
Háskóla íslands. Ég hef nefnilega grun um að margir bókmenntafræðingar,
erlendir jafnt sem innlendir, hafi beitt svipaðri aðferð á ferðum sínum í gegnum
íslenska bókmenntasögu.
2.
Ef dæma má bæði af fjölda sagna og fjölda handrita hverrar sögu voru riddara-
sögur langvinsælasta lesefnið hér á landi um 700 ára skeið, allt frá því á 13du öld
og fram til loka 19du aldar, eða jafnvel lengur: á fyrstu áratugum þessarar aldar
var enn verið að skrifa upp sögur af þessu tagi.
í bókmenntasögu sinni segir Stefán Einarsson að heildarfjöldi allra lygisagna
muni vera um 265.1 Tala þessi hefur þótt fullhá, en með því að telja sögur
nokkurra þýddra safna hverja fyrir sig stenst hún alveg. Auk þess eru sumar
sagnanna varðveittar í upp undir 70 handritum, eða fleirum en nokkur Islend-
ingasaga.
Eins og flestir vita eru riddarasögur tvennskonar. í fyrsta lagi eru þýðingar,
flestar úr frönsku, sem gerðar voru mestmegnis í Noregi á 13du öld. Elst þeirra
er líklega Tristrams saga, sem að eigin sögn var þýdd 1226, en frá svipuðum
tíma eru sögurnar þrjár eftir Chrétien de Troyes: Erex, Ivens og Parcivals sögur,
SKÁLDSKAPARMÁL 1 (1990)
157