Skáldskaparmál - 01.01.1990, Side 168
166
Matthew James Driscoll
8.
Ég gat þess áðan að ein ástæða þess að riddarasögunum, einkum þeim yngstu,
hefði verið útskúfað væri nokkurskonar miðaldadýrkun sem virðist enn vera
ríkjandi.
Hugmyndir um yfirburði Islendingasagna, og þar með ónýti riddarasagna,
hafa verið svo sterkar í Islendingum, sem að öðru leyti ganga svo ákveðnir til
verks þegar sanna þarf að þeir séu með á nótunum, að þeir hafa ekki komið
auga á hið mikla afrek forfeðra þeirra á því sviði miðaldabókmennta sem hvað
hæst ber, þ.e. riddarabókmenntanna. Eldri riddarasögurnar eru, margar hverjar,
perlur, vel samansettar og á gullfallegu máli. Ég er ekki í nokkrum vafa um að
þó Islendingasögurnar hefðu ekki varðveist, eða aldrei verið skrifaðar, þá gætu
Islendingar samt verið stoltir af bókmenntaarfi sínum.
Uti í löndum hefur í seinni tíð aukist mjög áhugi á alþýðumenningu, ekki
síst svokölluðum „Trivialliteratur". Það tímabil sem hefur verið hvað mest
rannsakað er tímabilið milli endurreisnar og iðnbyltingarinnar, sem á erlendum
málum kallast „early modern period“ eða „Fruhneuzeit". Á íslandi eru siða-
skiptin venjulega látin marka skil hins gamla og hins nýja, en í raun held ég að
við þau hafi lítið breyst í daglegu lífi íslendinga. Hér vantaði algjörlega þétt-
býlismyndun þá sem einkenndi Vestur Evrópu á þessum árum, og þeirra miklu
áhrifa sem iðnbyltingin hafði á menningu Vesturlanda gætir vart hér fyrr en á
þessari öld. Islenskt samfélag var, ef ekki beinlínis miðaldasamfélag, þá allavega
óiðnvætt („pre industrial“) fram á okkar öld. Því er ekki skrýtið að bókmennta-
tegund sem einkenndi evrópskt þjóðfélag fyrir iðnvæðingu skuli hafa lifað
lengur hér en annarsstaðar. Riddarasögur voru skrifaðar upp og lesnar í þaula
á Islandi um 700 ára skeið og eru þannig ein mikilvægasta heimild okkar um
alþýðumenningu hérlendis. Því væri tímabært að skoða þessar sögur og sérstak-
lega þær yngstu. Rannsaka mætti ýmsar hliðar þeirra. Augljóst er að sögurnar
eiga að einhverju leyti rætur sínar að rekja til erlendra sagna, en að hve miklu
leyti? Hver eru tengsl þeirra við eldri riddara og fornaldarsögur? Hvernig er
þróunin í riddarasagnagerð á þessu langa tímabili? Einnig þarf að bera þær
saman við almúgabækur nágrannalanda okkar frá svipuðum tíma. Mikilvægast
er þó án efa að kanna hvaða hlutverki þessar sögur gegndu hérlendis, hverjir
lásu þær, af hverju?
Er ekki orðið tímabært að rjúfa þessa miklu þögn?