Skáldskaparmál - 01.01.1990, Síða 178
176
Ástráður Eysteinsson
„íslenskur rithöfundur getur ekki lifað án þess að vera síhugsandi um hinar
gömlu bækur.“9 Halldór tekur síðan stórt skref í því að setja fornsögurnar í
nýtt samband við íslenska lesendur þegar hann ræðst í að gefa þær út með
viðtekinni nútímastafsetningu, fyrstur manna á 20. öld. Á árunum 1942-46
gefur hann þannig út Njálu, Grettlu, Laxdælu, Hrafnkötlu og Alexanderssögu.
Að sumu leyti er hann þar ekki bara í hlutverki útgefanda heldurþýðanda.
V
Sverrir Tómasson segir frá því í Skírnisgrein fyrir nokkrum árum þegar hann
rakst á Færeyingasögu með nútímastafsetningu á þýsku bókasafni. Slíkt er
náttúrlega ekki í frásögur færandi nema hvað bókin var flokkuð með þýð-
ingum norrænna fornbókmennta. Sverrir bendir á að þótt slíkt sé á misskilningi
byggt hafi Þjóðverjar nokkuð til síns máls; íslensk nútímastafsetning er afurð
annars málstigs en þess sem verkin eru rituð á og útgáfa á slíkri stafsetningu „er
eins konar túlkun og íslenskar fornbókmenntir eru skrifaðar á máli sem í
mikilsverðum atriðum er frábrugðið íslensku eins og hún er töluð í dag, enda
þótt lítt breytt formgerð málsins og íhaldsöm stafsetning hjálpi til að minnka
þann mun, svo að flestum lesendum nú á dögum er hann alls ekki ljós, nema
þar sem merking orða hefur breyst."10 Ef við ætlum að notast í þessu sambandi
við hugtakið „þýðing“ erum við vissulega að nota það í víðum skilningi - þær
umræður sem enn standa um stafsetningu og önnur slík viðmið í fornsagna-
útgáfu eru þá einskonar þýðingadeilur.
Þessi víða notkun þýðingarhugtaksins er svosem ekki ný af nálinni. Hana
má sjá í þrítugri ritgerð eftir Roman Jakobson, þar sem hann flokkar þýðingar
í þrennt: I fyrsta flokknum er það sem hann kallar „intralingual translation“,
eða endurorðun, endurframreiðslu texta á sama tungumáli; í öðrum flokknum
er „interlingual translation" eða „translation proper“, þ.e.a.s. hin venjulega
yfirfærsla tákna milli tungumála; og í þriðja lagi „intersemiotic translation",
þýðing milli táknmiðla, t.d. þegar frásögn í lesmáli er þýdd yfir í mynd.11 Nú
eru fornsögurnar að því leyti sérstakar að þær eru í raun ekki til sem frumtexti,
en ef við miðum við handritatexta, þá eru útgáfur með gildandi nútíma-
stafsetningu augljóslega þýðingar í fyrsta flokki Jakobsons. En þær skarast líka
yfir í annan flokk, því nútímastafsetningin ber vott um annan málheim en
handritatextinn. Sú flokkun minnir okkur líka á að hér er um að ræða „texta-
flutning" milli ólíkra merkingarheima og með nútímastafsetningu er leitast við
að skapa okkur forsendur til að sættast sem best við þann framandi heim sem
sögurnar bera með sér (án þess að ég taki hér afstöðu með eða á móti slíkri
sáttaumleitan). I þessu sambandi má geta þess að vissar hræringar í þýðinga-
fræði - ég hef hér í huga ritsmíðar þýðingafræðinga eins og André Lefévere og
Itamar Even-Zohar12 - beinast mjög í þá átt að nota túlkunarfræðilegt sjónar-
horn þýðinga á hverskonar endurflutning texta í breyttri mynd. I þessum