Skáldskaparmál - 01.01.1990, Page 184
182 Ástráður Eysteinsson
Snorra og sækir þá fimlega, hlífandi með skildi, höggvandi með exi þeirri er vön var
að fá mörgum manni náttstaðar. Lauk svo þeirri atsókn að Þorgeir vó þá báða. (803)
Frá sjónarhóli þeirrar gegndarlausu grótesku sem einkennir Gerplu kann
manni að virðast sem orðræða hins hetjulega raunsæis sé enn í gildi í köflum
sem þessum í Fóstbræðrasögu. Sé hins vegar lesið frá þeim sjónarhóli sem
Helga býður upp á, virðist hlaupa mikill tvískinnungur í lýsinguna; t.d. í
stuðluð orð og klausuleg: „miklum mjtikleik", „hörðum hug“, sem og í fleiri
ritklif er teljast mega dæmigerð fyrir Fóstbræðrasögu: „hið óarga dýr“. Og
þetta litla lambhús er vart til fyrirmyndar um þau virki sem hetjur þrá að rjúfa.
Er textinn að skopast með Þorgeir? En þessu dæmi má einnig snúa við. Lítum
á átök Þormóðs við kappana þrjá á Grænlandi, átök sem enda með því bráð-
fyndna atriði, sem Helga fjallar um, er Falgeir týnir lífi vegna þess að hann
missir niður um sig brækurnar. Sigur Þormóðs er óneitanlega „gróteskur", en
verðum við ekki samt að telja þessa raun hans „hetjulega“, jafnt í samhengi
Fóstbræðrasögu sem í víðara samhengi Islendingasagna? Svipaða tvöfeldni má
sjá í lokaorrustu Þorgeirs þar sem hann verst hreystilega (svo mjög að þegar
Þorgeir fær spjót Þóris Austmanns í sig gengur hetjan á lagið til að komast í
höggfæri við hann!).
Fóstbræðrasaga er að minnsta kosti ekki grótesk á sama hátt og Gerpla;
fremur má segja að í eldri sögunni ríki tvöfeldni sem kann að helgast af átökum
ólíkra táknkerfa. Brugðið er upp myndum af hetjulegu framferði sem jafnframt
er þó sýnt í skoplegu ljósi. I Gerplu er „hetjuraunsæið" fyrst og fremst sjálfsagt
viðmið sem sagan skopstælir gróflega og linnulaust; sagan virðist hafna þessu
viðmiði skýrt og skorinort og hreinlega standa fyrir utan það. I Fóstbræðrasögu
er fremur grafið undan þessu viðmiði „innan frá“; sagan veit af sjálfri sér í
hugmyndaheimi Islendingasagna. Jafnframt býðst hún til að vera „lesin í
sundur“. Þá má spyrja hvort slíka tvöfeldni, slík innri átök ólíkra táknkerfa, sé
ekki að finna víða, jafnvel í hinum frægustu Islendingasögum.
X
Hitt er svo annað mál að erfitt kann að reynast að festa hendur á þeim heimi
sem Fóstbræðrasaga er sprottin úr. Halldór Laxness þýðir söguna að ýmsu leyti
yfir í hugmyndaheim nútímans, en hann leysir okkur ekki undan þeim vanda
sem fylgir því að túlka Fóstbræðrasögu og standa andspænis hugmyndaheimi
samfélags sem er ólíkt okkar í grundvallaratriðum, meðal annars vegna þess að
það er ekki ríki i nútímaskilningi og býr ekki við það framkvæmdavald sem
okkur þykir náttúrlegur þáttur í starfsemi samfélags og sem mótar skilning
okkar á mannlegum samskiptum. Undan nútímaskilningi komumst við ekki og
því hlýtur sá samruni sjónhringa sem túlkunarfræðingar sjá í boðskiptum við
gamla texta að einkennast af hugmyndalegum sem mállegum árekstrum. Sem