Skáldskaparmál - 01.01.1990, Qupperneq 195
Klifstig Islendingasagna
193
„sérhver bragur er ákveðið kerfi endurtekninga" (Óskar, 32; sjá ennfremur um
endurtekningar í ljóðum: sama rit, 110-118; Kittang og Aarseth, 36-38;
Lotman, 58-64, 87-94).
Rím er gott dæmi um hvernig endurtekningar, sem eitt sinn þóttu frumlegar
eða snjallar, glata ferskleika sínum og skáldskapargildi. Eftir því sem rím-
forðinn þynntist út, urðu rímorðin æ fyrirsjáanlegri og tuggukenndari uns þar
kom að stoðum var kippt undan rímkvöðinni í íslenskum kveðskap. Mönnum
fór að finnast þetta yrkja sig sjálft, að tjáningarmöguleikar væru orðnir of
takmarkaðir innan ramma formsins. Endurtekningarkrafan hafði farið úr
hömlu, svo fram komu sterkar frumleikakröfur eða kröfur um upplýsingar til
þess að listgildinu væri ekki fórnað með öllu. Síðan hefur ferskeytlan verið í
svipuðu áliti og krossgátan. En listkveðskapur hélt aðra leið, leið þar sem
endurtekningar og mynstur voru að vísu fyrir hendi en ekki eins augljós og
áður hafði verið - birtust í nýrri tóntegund, ef svo má segja.
Þetta má kannski taka saman svo: Skáldskapnum virðist nauðsyn að byggja
á endurtekningum eða því sem táknfræðingar nefna umfremd, en það eru
upplýsingar sem eru umfram og mættu missa sín án þess að bókstaflegri
merkingu væri hnikað. Það sem í ljóði virðist listbragð væri tugga í daglegu
máli; ljóðið er því að nokkru leyti „klisja", samkvæmt þessu. En hér er raunar
komið að öðru deiluefni í bókmenntafræði sem er hvort nokkru geti nokkurn
tíma verið ofaukið í bókmenntaverki. Hér nægir að benda á, að þó að mörgum
þyki mjög fyrirsegjanleg skáldverk vond, þá er hitt eins líklegt að endur-
tekningar og ýmiss konar munstur fylgi skáldskap eins og nótt degi.
Þótt endurtekningar séu svo þýðingarmiklar í skáldskap, ef til vill af því að
þær hafa á sér blæ launhelga og minna á slátt hjartans, þá eru endurtekningar
á vissan hátt óþolandi, einkum fyrir nútímamanninn sem krefst þess að upp-
lifa alltaf eitthvað nýtt, vita meira og meira. Og skiptir um rás ella. Kannski
gegnir öldugjálfur klisju og endurtekningar því hlutverki að draga eitthvað
annað fram, eitthvað sem verður ljósara á hinum daufa bakgrunni síbylj-
unnar.
Endurtekningar eru, sem kunnugt er, afar áberandi í Islendingasögum. Mann-
dráp fylgja þar á manndráp ofan, og orðalag er síendurtekið, draumar, forspár
og vísur eru nokkuð fastur punktur og svo framvegis.
Endurtekningar í miðaldaritum hafa verið rannsakaðar með ýmsu móti. Hér
má minna á málskrúðsfræðina, sem bauð mönnum upp á fjölda reglna og
bragða til að auka áhrif máls síns. Höfuðviðmið miðaldahöfunda voru fólgin í
fornum ritum, sem voru kunn um allan hinn kristna heim.
Eins og Sverrir Tómasson ræðir í doktorsritgerð sinni, þá voru klifanir af
ýmsu tagi einmitt ær og kýr miðaldahöfunda. Þetta mál hefur Ernst Robert
Curtius áður rakið nokkuð (en reyndar án hliðsjónar af norrænum bókmennt-
um), og notar hann hugtakið topos eða ritklif sem felur m.a. í sér stílbrögð og
algengar, staðnaðar hugmyndir, eins og Sverrir segir (Sverrir, 70, 72). Curtius
13