Skáldskaparmál - 01.01.1990, Síða 206
204
Gunnar Harðarson
að undanskilja nútímaljóð - er oft torráðinn við fyrsta lestur. Þeim sem eiga
erfitt með að brjótast í gegnum dróttkvæði má reyndar benda á að eitt sérkenni
skáldskapar er hrynjandin; þeir geta þó alltaf reynt að njóta hennar. Stærsti
vegartálminn á leið manna til skáldskapargildis dróttkvæðanna er vitaskuld hið
flókna skáldamál þeirra, heitin og kenningarnar og svo orðaröðin. Nú er það
vissulega rétt, að skáldskaparmál dróttkvæða er ekki alltaf árennilegt og að
kenningarnar, samsetning þeirra og blæbrigði, vega þungt á metunum, jafnvel
svo að margir sjá aðal dróttkvæðanna í sjálfum hinum listilega vef sem spinnst
eins og hjúpur utan um yrkisefnið. Á hinn bóginn verður því ekki á móti mælt
að mörg dróttkvæði eru í eðli sínu tækifærisljóð, ort af einhverju tilefni, ytra
eða innra, í lífi skáldsins, og standa þannig í milliliðalausu sambandi við raun-
veruleikann. Þeim virðist ætlað að miðla upplifun einstaklings, vera persónu-
legur, ljóðrænn skáldskapur og sverja sig að því leyti í ætt við skáldskap nú-
tímans. Þess vegna verður að ganga að því vísu að dróttkvæði hafi það hlutverk
að miðla einhverju til lesandans, þau séu þrátt fyrir allt skáldskapur, en ekki
innantómur leikur að orðum.
Að vísu hafa mörg dróttkvæði, og þá kannski helst konungakvæði, en einnig
önnur, ekki verið byggð á persónulegri reynslu skáldsins af atburðunum. Þá
verður skáldið að ímynda sér atburðina sem það lýsir. Hefðin kann að setja
skáldinu sínar skorður fyrir því hvað gjaldgengt er í skáldskap og hvað ekki, en
hún fjötrar ekki ímyndunarafl skáldsins og þess vegna ætti að sjást hvernig
ímynduð skynjun skáldsins kemur fram í kvæðinu og hvaða atriði það notar til
þess að hrífa áheyrandann. Form kvæðisins, skáldamálið sem og önnur
hefðbundin atriði eru sveigð undir viðleitni skáldsins til að miðla upplifun
sinni. Þetta gildir hvort sem í hlut eiga kvæði, sem eru til orðin vegna beinnar
upplifunar skáldsins, eða kvæði sem styðjast við ímyndaða upplifun þess.
Kveikjan að kvæðinu er eftir sem áður atburðurinn sjálfur og áorkan hans á
skáldið. Viðbrögð skáldsins koma fram í notkun hans á skáldamálinu, hann
tekur það í sína þjónustu og lýsir atburðinum eins og hann skynjaði hann. Það
er langt frá því að formið og skáldskaparmálið ákvarði efnistök og yrkisefni
skáldsins.
En spurninguna um formið og skáldskaparmálið er hægt að dýpka enn
frekar og gefa henni heimspekilega vídd. Hún varðar sígilt vandamál skáld-
skaparins og mætti orða eitthvað á þessa leið: Ef eitt hlutverk skáldskapar er að
birta lesandanum einstaklingsbundna sýn, hvernig er þá hægt að gera það með
almenningseign eins og orðum? Hvar er snertipunktur hins einstaklingsbundna
og hins almenna, hin sameiginlega viðmiðun sem gerir skáldinu kleift að segja
hug sinn og vekja jafnframt upp svipaðar kenndir hjá lesandanum? Við vitum
að það er ekki alltaf einfalt mál að finna hinn sameiginlega snertipunkt skálds
og lesanda þegar nútímaljóð eiga í hlut. Er þá nokkur von til þess að
dróttkvæði, með allt sitt flókna og torskilda skáldskaparmál, geti miðlað
upplifun skáldsins til lesandans?
Hvernig leitast dróttskáldin við að hrífa áheyrandann? Við skulum fyrst líta