Skáldskaparmál - 01.01.1990, Side 217
Nú er hin skarpa skálmöld komin
215
borgir brjóta
og boga sveigja,
elda að auka
og aga að kynda.
„Eða hví leikið þeir nú eigi?“ Þeir sögðust öngan hafa knött. „Hér er,“ segir hann og
brá steini undan kuflinum og laust einn til bana. Síðan tóku hver að öðrum þann
stein og börðust með en allir féllu þeir er fyrir urðu.14
Þessi sýn Hafliða er óvenjulega ítarleg. Mikilúðlegur maður kemur á ókunnar
slóðir, þar sem leikur er í þann mund að hefjast. Orðaskipti milli komumanns
og heimamanna, og vísa gestsins, eru rakin í smáatriðum. Og loks er sagt frá
átökum þar sem allir falla. Hafliði er einungis áhorfandi. Draummaðurinn er
líkur öðrum draummönnum, sem oftast eru gráklæddir, miklir vexti og jafnvel
illilegir. Það er athyglisvert að karlarnir eru í þann mund að hefja knattleik,
þegar hinn dularfulli maður nálgast. Upp í hugann koma frásagnir Völuspár af
leik goðanna í þann mund sem dregur að átökum við jötna15 og af leik Mímis-
sona í þann mund sem Ragnarök hefjast.16 Leikurinn er í hrópandi andstöðu
við þá ógn, sem í hönd fer.
Vísan er ort undir fornyrðislagi, en eddukvæðahættir eru algengir í draum-
kveðskap. En hver er draummaðurinn? Nafnið Kár er einkum þekkt sem
seinni hluti mannsnafns, s.s. Styrkár. En hér gæti einnig verið um meðvitaða
persónugervingu á vindinum Kára að ræða.17 Fyrstu tvö vísuorðin bergmála
óneitanlega liðssafnað jötnanna í Völuspá, þegar þeir fylkja liði úr jötun-
heimum í bardaganum mikla. Slíkan samanburð við atburði Ragnaraka styðja
einnig næstu tvær línur, þar sem allur heimurinn skelfur og borgir brotna.18
Hinn tröllslegi Kár er auðsjáanlega ókunnur gestur í þessum heimi, á svipaðan
hátt og hinir myrku jötnar í Ragnarökum. Ef Kár táknar vindinn Kára, er hér
um náttúruhamfarir að ræða í líkingu við endalok heimsins. Slíkar lýsingar er
ekki aðeins að finna í Völuspá, heldur eiga þær sér djúpar rætur í dómsdags-
lýsingum í ritum kirkjunnar, sem skáld Völuspár þekkir. Við skulum taka eitt
dæmi. Orðið agi er sjaldgæft í íslenskum kveðskap, en merkir ófrið og óróa.19
I Gamal Norsk Homiliebok er það orð einmitt notað í þeirri hómilíu sem
boðar dómsdag:
skelfr oll iorð fyrir aga mycclum. þa scal ór himnum cuma sa hinn hæiti ældr. en ór
þæim ældi scal brenna hinn viða verold. biorg ok stæinar monu þa renna sem vax
hæit eða vallanda bly.7®
Það er mjög líklegt að skáldið hafi slíka lýsingu um dómsdag í huga. Kár er því
ekki einungis kominn til að spá ófriði og til að hrinda vígum af stað, heldur er
hér á ferðinni dulbúin sýn um ragnarök eða dómsdag. Og öruggt er að prédik-
anir kirkjunnar um hinn „efsta dóm“ hafa verið ofarlega í huga höfundar
Islendinga sögu.
Eftir að Kár hefur farið með hina kaldranalegu vísu tekur alvaran við.