Skáldskaparmál - 01.01.1990, Page 222
220
Gudrún Nordal
orð Völuspár: „Hart er í heimi“.44 Þannig eru draumvísur einnig mikilvægt
tæki til almennrar ádeilu, þar sem draumarnir hafa í raun sjálfstætt tilverustig
innan frásagnarinnar.45 Verður innihald sögunnar ekki túlkað nema efni þeirra
sé rannsakað.
Vert er að minnast tveggja vísna í þessum kafla til viðbótar. Svo segir í sögunni.
Maður hét Snæbjörn. Hann bjó í Sandvík út frá Höfðahverfi. Hann gekk út um nótt.
Það var fyrir jól um veturinn fyrir Örlygsstaðafund. Þá gekk kona í túnið mikil og
þrýstileg, dapurleg og rauðlituð. Hún var í dökkbláum kyrtli. Stokkabelti hafði hún
um sig miðja.46
I fyrri vísunni, sem þessi dapurlega kona kveður, lýsir hún hvernig hjól ham-
ingjunnar hafi snúist við, svo að jafnvel örlaganornin Urður getur ekki forðað
því fári, er að höndum fer. Að veraldargengið væri fallvalt var auðvitað
fyrirferðarmikil trú á miðöldum. En konan sjálf er ekki hlutlaus áhorfandi,
heldur beinn þátttakandi. Svo segir í síðari vísunni:
Eisandi fer eg unda
undrsamlega funda.
Líð eg um hól og hæðir,
hart sem fugl hinn svarti.
Kem eg í dal þar er dyljumst
dánarakrs til vánar.
Harmþrungin fór eg hingað
Heljar ask að velja,
Heljar ask fer eg velja.
Draumkonan geisist yfir landið, „eins og fugl hinn svarti". Valkyrjur gátu
brugðið sér í fuglslíki, eins og segir t.d. í Völundarkviðu (Völ 1). Er hugsanlegt
að skáldið hefur fyrir sér lýsingu Völuspár í síðasta erindi kvæðisins:
Þar komr inn dimmi
dreki fljúgandi,
naðr fránn, neðan
frá NiðafÍQllom.47
Það er undarlegur tregi yfir vísunni; örlögin verða ekki flúin. I síðustu vísu-
orðunum leikur skáldið sér að tveimur myndum; annaðhvort er um að ræða
Ask Heljar, þ.e. fæðu Heljar, sem er líklegri merking (sem eru menn), eða að
Askur merki ílát. I Gylfaginningu er diskur Heljar kallaður Hungur.48 Þannig
endar vísan í dæmigerðri tvíræðni, spurningu og óvissu um þá atburði, sem í
hönd fara.
Fleiri vísur í þessum draumakafla einkennast af dreyrugum og blóðþyrstum
lýsingum á valkyrjum eða þeim, er hlakka yfir valnum. Jón Grettisson dreymdi
að maður kæmi til hans sem kvað þessa vísu: