Skáldskaparmál - 01.01.1990, Page 245
„Hvorki er eg fjölkunnig né vísindakona ... “
243
Því að vissulega talar guð einu sinni,
já, tvisvar, en menn gefa því ekki gaum.
í draumi, í nætursýn,
þá er þungur svefnhöfgi er fallinn yfir mennina,
í blundi á hvílubeði,
opnar hann eyru mannanna
og innsiglar viðvörunina til þeirra ^
Miðaldamenn skrifuðu margt um drauma og sýnir en ekki verður vikið að því
hér nema í stöku tilviki þar sem þörf er á. Hins vegar mun nauðsynlegt að
skilgreina nokkur hugtök og stikla á fáeinum meginatriðum áður en lengra er
haldið. I skilgreiningum sem og ýmsu öðru styðst ég við bók Peters Dinzel-
bacher, Vision und Visionsliteratur im Mittelalter, Stuttgart 1981.
Sýnum má í grófum dráttum skipta í tvennt þ.e. leiðslur (Visionen) og það
sem kalla mætti birtingar (Erscheinungen) eða jafnvel kraftbirtingar. Um
leiðslu er talað þegar menn hverfa að tilstuðlan yfirskilvitlegra afla, úr eigin
umhverfi á annað svið. Þetta svið eða inntak þess skynja þeir sem mynd er þeir
geta síðar lýst. Reynslu af þessu tagi öðlast menn þegar þeir eru í leiðslu og því
opinberast þeim það sem þeim hefur áður verið hulið. Kraftbirting kallast það
hins vegar þegar menn verða fyrir yfirskilvitlegri myndrænni reynslu án þess
að þeir séu í leiðslu eða glati „venjulegu“ veruleikaskyni sínu og eru færir um
að lýsa reynslu sinni eftir á. Til eru blendingsform af þessu tvennu og þar að
auki geta bæði leiðsla og kraftbirting orðið í draumi; þá mætti tala um draum-
leiðslu og draumbirtingu eða kraftbirtingu í draumi.
Enda þótt miðaldamenn tryðu staðfastlega á guðlegan uppruna ýmissa
drauma og sýna, voru þeir þeirrar skoðunar að ekki væru öll slík fyrirbæri
opinberun, skilaboð að handan eða annað þess háttar. Samkvæmt Díalógum
Gregóríusar gátu draumar t.d. allteins verið tálbrögð djöfulsins sem opinberun
guðs, ef þeir áttu þá ekki bara rót sína að rekja til matar og meltingar.9 „Ekki er
mark að draumum“ (416), segir Sturla Sighvatsson er hann hefur dreymt fyrir
falli sínu á Orlygsstöðum og vera kann að orð hans vitni um vantrú miðalda-
manna á því sem bar fyrir augu þeirra í svefni. Ég get þó ekki stillt mig um að
skjóta hér inní að kanski er þessi fleyga setning einungis ritklif. Athugasemdir
af þessu tagi koma ekki aðeins oftar fyrir í Sturlungu skömmu áður en erfiðir
draumar rætast heldur má líka finna þær í erlendum miðaldaritum.10 Þegar
Karl síðar fjórði keisari er staddur með föður sínum í Terensó síðsumars 1333
verður hann t.d. fyrir draumleiðslu sem opinberar honum dauða frænda hans;
þegar hann segir frá reynslu sinni, hlær riddari nokkur að honum og er studdur
af föður Karls sem segir:„Noli credere sompniis".11 Varla þarf að taka fram að
opinberun Karls var staðfest nokkru síðar.
En nóg um það - leiðslur voru líka gjarnan falsaðar og upplýstum mönnum
var það fullljóst. Nú langar kanski einhvern til að hvá og því skal sérstaklega
tekið fram að þrátt fyrir alla raunhyggju síðari tíma hljótum við að líta svo á að
leiðslur séu „ekta“ eða „sannar" meðan ekkert sérstakt mælir gegn því að svo