Skáldskaparmál - 01.01.1990, Síða 249
„Hvorki er egfjölkunnig né vísindakona ...
24 7
alþekktur vettvangur í leiðslubókmenntum miðalda, þá reyndar ekki síst í
sönnum leiðslum.25 Draumurinn verður á messu Maríu Magðalenu sem er ekki
alveg merkingarlaust því að sú kona var í hugum manna á miðöldum óvenju
margslungin og stóð frelsaranum nær en flestar aðrar. Hún er konan sem
eftirlætur systur sinni Mörtu húsverkin en situr sjálf við fótskör Jesú og nemur
orð hans; hún er sú systir Lasarusar sem smyr fætur herrans er hann kemur
hinsta sinni til Betaníu; hún er ein kvennanna sem fylgir Jesú alla leið til
Jerúsalem, sú sem hefur verið læknuð af sjö illum öndum og er viðstödd dauða
frelsarans og upprisu; síðast en ekki síst er hún hin bersynduga kona sem laugar
fætur Jesú tárum sínum og þerrar þá höfuðhári sínu og hlýtur fyrirgefningu
syndanna vegna trúar sinnar og elsku.26 Hér virðist eðli hinnar bersyndugu
skipta mestu, a.m.k. birtist meynni Jóreiði nú á messu hennar draumkona sem
að kristnum skilningi er ekki síður syndug en María, þ.e.a.s. Guðrún
Gjúkadóttir. Nafn hennar kemur þó ekki fram fyrr en í þriðja draumnum.
Sérstaklega er tekið fram áður en draumkonan mætir til leiks í frásögninni að
draumurinn hafi orðið áður en fall Eyjólfs Þorsteinssonar spurðist.
Draumkonan birtist Jóreiði vestan fyrir hlaðið á Miðjumdal og er á „grám“
hesti og í „dökkum“ klæðum. Grár merkir allajafna „hvítur“ þegar um hesta er
að ræða og svo mun hér; hvítt er litur hins himneska og því er hvítur reiðskjóti
þeirrar sem opinberun flytur. Draumkonan er hins vegar sjálf í „dökkum"
þ.e.a.s. svörtum klæðum af því að svart er litur syndarinnar og boðar ill tíðindi
og dauða.27 „Mikill var hesturinn og svo konan,“ segir sagan og þar með er
sýnt að hér eru ekki hversdagsverur á ferð.
Svo sem altítt er í kraftbirtingum hefja Jóreiður og draumkonan samræður.28
Jóreiður spyr konuna fimm spurninga, þ.e. hvaðan hún komi að, hvað sé títt af
Þorvarði Þórarinssyni, hvort nokkuð sé að marka orð hennar, hvar
brennumenn Flugumýrar séu og hvað þeir ætli sér. Konan svarar Jóreiði sem
vænta mátti jafnharðan og hún spyr en eftirtektarvert er hversu skipuleg
samræðan er, mér liggur við að segja symmetrísk, bæði í formi og efni. Fyrstu
og síðustu spurningu Jóreiðar, svarar draumkonan í óbundnu máli þannig að
upphafs- og lokasvar hennar mynda umgjörð utan um hin þrjú svörin sem eru
í bundnu máli, þó eitt með örfáum aðfararorðum. I ofanálag fjalla fyrsta og
þriðja vísan um sama efni en miðvísan, stendur sem þungamiðja draumsins, ein
og stök.
Fyrsta svar draumkonunnar hljóðar svo: „Norðan kom eg að...úr násheim“
og er með því ítrekað að hún er ekki af þessum heimi, jafnframt því sem kulda
og dauðakvíða er lætt inn í frásögnina. Annað svarið og fyrsta vísan virðast
myndræn lýsing á þeim andstæðu fylkingum sem berjast á Þverárfundi; fyrri
hluti vísunnar er hól um Þorvarð sem sagður er „hurð fyrir heim / brynjaðr í
sveim“ en seinni hlutinn lýsir vanþóknun draumkonunnar á brennumönnum
„mannhundunum" sem hún sér eins og í sjónhending í grennd við Þorvarð eða
andspænis honum. Þriðja svarið, miðvísan sem er hin formlega miðja draums-
ins, flytur Jóreiði þau mikilvægu skilaboð að hún, ættingjar hennar og af-