Skáldskaparmál - 01.01.1990, Page 263
SQguljóð - skrgk - háð
261
baki byggi ævagömul frjósemisdýrkun við sjó og vötn sem nákomin væri
sköpunargáfu skáldsins. Hann setti orðið í samband við frásögn Flateyjarbókar
af Sighvati Þórðarsyni frá Apavatni þegar hann át silungshausinn og varð skáld
(Die Bezeichnung skáld und ein Altnordischer Fischerbrauch, 313-316).
Sannast sagna er svolítið leirbragð af kenningu Gutenbrunners rétt eins og
Apavatnssilungi. Gutenbrunner hélt eins og Magnus Olsen að orðið greppur
styddi mál sitt. Því miður virðist fræðimanninum hafa láðst að athuga hvort
orðin hefðu verið notuð í hálfkæringi; spaugsömum íslenskum sjómönnum
hefði dottið í hug að líkja gotunni við skáld. Mönnum sést oft yfir að skráðar
merkingar orða í orðabókum segja aðeins hálfa sögu. Orðið greppur þekkist til
að mynda í merkingunni gúlpótt flík svo að líkingin við hrognabuxur er auðsæ.
Aftur á móti kann að vera rétt hjá Magnus Olsen og Siegfried Gutenbrunner að
orðið hrogn hafi verið bannorð á sjó og því hafi menn notað greppur og skáld,6
Önnur upprunaskýring orðsins skáld er sú að það sé skylt schelden í mið-
lágþýsku og scold í ensku og merki þá „þann sem ávítar" eða „lýsir einhverju
yfir upphátt". Ásgeir Blöndal Magnússon hugði að þar með hefði það fengið
merkinguna kvœðamaður (Um sérhljóðabreytingar á undan samhljóðaklösum
með /-i, 25).
Þessar skýringar falla ekki vel að merkingu orðsins í fornu máli. Starfi
skáldsins í íslensku þjóðfélagi miðalda var annar og meiri en þess sem aðeins
sér og lýsir einhverju yfir, ávítar menn eða kveður. Þetta kemur glöggt fram í
fornlögunum. Grágás hefur langan kafla um skáldskap sem níð7 Menn skyldu
hvorki yrkja lof né löst um annað fólk. Sé miðað við þau ákvæði sem liggja við
níði er ljóst að lögfróðir menn hafa litið á skáldið sem flytjanda sannra og
ósannra tíðinda. Þetta sjónarmið birtist einnig í verkum Snorra Sturlusonar. I
Eddu er augljóst að höfundurinn hefur talið skáldin vera innblásin af goðlegum
krafti, þau bergja á goðlegu sakramenti Óðins, Suttungamiði; ljóðasmiðir mæla
fram sannindi í hendingum. Það kemur hvergi fram hjá Snorra að hann líti á
skáldið eins og hvern annan smið, þann sem ber saman óð með orðum. Slíkur
formalismi var honum framandi, a. m. k. í eigin kenningum óðfræðinnar í
Eddu.8 Skáldið fær í öðrum forníslenskum heimildum fulltingi æðri máttar-
valda. Það þáði andagiftina annaðhvort úr Són eða Boðn eða listin „veittiz af
guði“ (Jóns saga postula IV, Postola sögur, 509). Jafnframt er skáldið boðberi
sannleiks. Þessi afstaða til skáldskapariðju kemur gleggst fram í samsettu orði:
guðspjallaskald. Um sannindi þeirra ritninga var ekki efast. Þetta er í samræmi
við viðhorf þau sem menn höfðu til skrifta í óbundnu máli: það að setja saman
bækur var forníslenskum höfundum sköpun. Þeir gera bækur líkt og drottinn
sjálfur samdi himin og jörð.
Mér virðist af formála Heimskringlu að Snorri Sturluson hafi bæði þekkt þá
afstöðu til skáldskapar sem fram kemur í orðinu guðspjallaskald og þá alkunnu
skoðun heimspekinga að skáldskapur sé ósannur. Tilvísun hans til skröks í
hirðkvæðum sé aftur á móti ígrundað svar hans við síðarnefndu skoðuninni og
lagaákvæðum. Byggir hann þar og ugglaust á eigin reynslu. Hann orti sjálfur