Skáldskaparmál - 01.01.1990, Page 271
Ég var sjónarvottur! Hvað gerðist?
269
fjallað ítarlega um hvernig nokkrir frásagnarfræðingar og sagnfræðingar hafa
notað tímahugtakið og skyld hugtök. Ricoeur byggir á tímaheimspeki
Ágústínusar kirkjuföður og skáldskaparfræði Aristótelesar. Hann setur fram þá
tilgátu að gagnkvæmnisregla gildi á milli tíma og frásagnar: „Tíminn verður
mannlegur tími að því marki sem hann er sundurgreindur sem frásögn - og
öfugt verður það, sem sagt er frá, marktækt að því leyti sem það afmarkar
einkenni reynslu sem bundin er tíma“ (1983, bls. 17).
Á öðrum stað kemur fram hjá Ricoeur (1983, bls. 85) að hann telur ekki að
þetta samband milli frásagnar og mannlegrar, tímabundinnar reynslu sé tilviljun
háð, heldur tjái það þvert á móti yfirmenningarlega nauðsyn. Til stuðnings til-
gátu sinni ræðir Ricoeur um þrenns konar eftirlíkingu, sem hér skal sagt frá í
stuttu máli, því hún gefur tækifæri til að greiða úr sumum af þeim flækjum sem
eftirlíkingarkenning Aristótelesar hefur alið af sér. Tekið skal fram að Ricoeur
byggir á ítarlegum rannsóknum á kenningum fyrirbærafræðinga á borð við
Martin Heidegger og Edmund Husserl um tíma og reynslu, og líkan hans er
mun dýpra en ætla mætti af þessari stuttu endursögn. Ricoeur setur eftir-
líkingarkenningu sína hvergi fram á jafn einfaldaðan hátt og hér er gert. Endur-
sögnin er ætluð til útskýringar og er að sjálfsögðu á ábyrgð höfundar en er þó
í fullu samræmi við orð Ricoeurs.
Á grundvelli fyrirbæra má greina þrjú svið eftirlíkingar sem eru „formynd"
(e. prefiguration), „sammynd" (e. configuration) og „síðmynd“ (e. refiguration).
Þar sem viðfangsefnið hér eru Islendingasögur sem bókmenntir má þegar færa
þetta á svið textans:
eftirlíking1: ritun textans
eftirlíking2: textinn sjálfur
eftirlíking3: lestur textans
Þær mörgu kenningar sem komið hafa fram á síðustu öldum til skýringar á
bókmenntum má í fljótu bragði flokka á grundvelli eftirlíkingarlíkansins með
tilliti til þess hvað viðkomandi kenning hefur lagt mesta áherslu á:
eftirlíking1: ævisögulegar kenningar, höfundurinn
eftirlíking2: nýrýni, formgerðarstefna
eftirlíking3: impressjónísk aðferð, viðtökukenningar
Þetta má tengja fornsagnarannsóknum á ýmsan hátt. Ljóst er að athygli
fræðimanna hefur færst frá eftirlíkingu1 til eftirlíkingar2 á þessu sviði, eins og
getið var um í inngangi. Merkara er þó að hvert svið hefur ákveðnar afleiðingar
hvað varðar samband við ytri veruleika. Hér má varpa fram þeirri tilgátu að líta
megi á Islendingasögur með sinni sérstöku blöndu af historia og fabula sem
togstreitu milli eftirlíkingar1 og eftirlíkingar2: höfundurinn eða ritarinn hyggur
sig skrifa historia en textinn togar hann í aðra stefnu, í átt að fabula.