Skáldskaparmál - 01.01.1990, Page 280
278
Keld Gall Jergensen
lagi hér. Háttargreiningin varðar hvernig frásagnir geta sagt meira eða minna
um það sem þær fjalla um og hvernig þær geti sagt þetta á grundvelli hinna
ýmsu sjónarhorna. Frásögnin getur veitt aukalegar upplýsingar um atburð eða
þá sleppt upplýsingum. I síðara tilvikinu verður þá auðvitað að gefa
upplýsingarnar óbeint til kynna svo viðtakandinn geti yfirleitt frétt af þeim;
fjarvera er alger en nærvera getur verið á ýmsum stigum. Og frásögnin getur
lýst atburðum frá einu eða fleiri sjónarhornum enda er einmitt breytilegt
sjónarhorn í flestum sögum.
Svo byrjað sé á því síðasttalda fyrst, þá er fyrsti hluti Vopnfirðinga sögu
sagður frá sjónarhorni Geitis, annar frá sjónarhorni Bjarna, syni Brodd-Helga.
I fyrsta hlutanum, þar sem sjónarhornið er hjá kynslóð Brodd-Helga og Geitis,
flyst sjónarhornið hins vegar frá Helga til Geitis. Framan af fær Helgi meira
rúm, sagt er frá þvermóðsku hans og hetjulegum bardaga hans við Svart, en
Geitir er aðeins kynntur með venjulegum hætti út frá ætt og óðali og síðar er
sagt að hann hafi verið „spekingur mikill" (bls. 1989). Þvínæst eru þeir sýndir
saman í vináttu sinni og þar er sjónarhornið hjá þeim báðum: „Svo var vingott
með þeim Brodd-Helga og Geiti að þeir áttu hvern leik saman og öll ráð og
hittust nær hvern dag“ (bls. 1989).
Næst færist sjónarhornið sem sagt yfir til Geitis. Og í samræmi við það flyst
einnig samúðin til Geitis um leið og neikvæðar afleiðingar af skrautgirni Helga
koma í ljós. Þegar í innganginum er oftar en einu sinni lögð á það áhersla að
Brodd-Helgi „var skrautmaður mikill“ og „var skrautmenni mikið" (bls. 1989),
og þegar Helgi og Geitir verða óvinir af því að þeir saka hvor annan um að hafa
hrifsað til sín hlut af varningi Austmannsins Hrafns þá sést greinilega að það er
ágirnd Helga ásamt þrjósku hans sem veldur upplausn vináttunnar, Helgi er
Geiti reiður af því að hann vildi ekki ráðast strax að Þorleifi (sem vel að merkja
er nefndur hinn kristni) sem olli því að hann komst undan með vörur Hrafns.
Það er hluti af lýsingu á þessum átökum að Helgi verður fyrri til að saka
Geiti um að hafa tekið kassann, sem um er sagt: „hugðu menn hann fullan af
gulli og silfri“ (bls. 1989), og ásökun Geitis um að Helgi hafi tekið dýrmætan
hring ber nánast að skilja sem beiskt svar við ótryggð Helga (sbr. bls. 1991).
Loks má nefna að átökin færast í aukana og Halla Lýtingsdóttir, kona Helga og
systir Geitis, dregst inn í þau af því að Helgi er henni reiður fyrir að hafa ekki
gripið í taumana þegar Þorleifur tók varning Hrafns: „Halla var þar, Lýtings-
dóttir, og skipti sér engu af“ (bls. 1990).
Sjónarhornsbreytingin frá Helga til Geitis sést best af þeim þætti þar sem
Helgi og Geitir eigast við, og ljósust verður hún þegar Geitir gabbar lík fallinna
manna sinna af Helga með því að láta nokkra menn laumast að bæ Helga aftan
frá meðan hann tefur Helga sjálfur á vellinum. Hér er reyndar um svonefnt
leikrænt tvísæi að ræða því að lesendur vita eins og Geitir og menn hans hvað
er á seyði en Helgi og hans menn vita ekkert. Svo að tvísæið komi betur fram er
að sjálfsögðu nauðsynlegt að láta Helga loks skiljast að hann hefur verið
blekktur: „Þá tók Helgi til orða: „Eftir koma ósvinnum ráð í hug,“ segir hann.