Skáldskaparmál - 01.01.1990, Qupperneq 282
280
Keld Gall Jorgensen
atburðunum. Hér eru nokkur dæmi þar sem Gísli hefur sjálfur orðið: „Get eg
og að auðna ráði nú um þetta“ (bls. 857), „mæla verður einnhver skapanna
málum og það mun fram koma sem auðið verður" (bls. 860), „Svo verður nú að
vera“ (bls. 862), „Þó mun eg, hyrs, að hvoru / hafa, bláfoldar skafla / snyrtigátt,
né eg sýti, / snauð, það mér verðr auðið“ (bls. 882). I einu dæmi kemur hið
sama fram með óbeinum hætti: „Nú fer Gísli heim og þykir honum um allt
einn veg á horfast“ (bls. 864).
Steblin-Kaminskij (1981) hefur gert grein fyrir hvernig skýra má þessa
opinskáu forlagatrú í sögunum:
Forlagatrú er í áugljósri andstöðu við kenningar kristinnar trúar. Þess vegna eru
tilraunir til að rekja hana til kristilegra áhrifa næsta kyndugar. Á hinn bóginn er
tæpast rétt að skilgreina hana sem heiðinn arf eins og hingað til hefur oftast verið
gert. Þessi trú er til hjá þjóðum með önnur trúarbrögð, t.d. hjá hinum klassísku
fornþjóðum og múhameðstrúarmönnum. Þess vegna er líklegra að rætur forlaga-
trúar séu sprottnar úr trú á traustleika tímans, úr því sem kalla mætti „rúmhverf-
ingu“ (spatialization) tímans, þ.e. þeirri hugmynd, að nálægð og fjarlægð í tíma,
nútíð og framtíð, séu jafn raunveruleg og áreiðanleg staðreynd og nánd og firð í
rúmi, enda hlýtur trú á forlög, - á það að framtíðinni, hinu fjarlæga í tíma, verði ekki
breytt, en að öðlast megi vitneskju um hana af fyrirboðum eða draumum - að
grundvallast á því, að framtíðin sé að nokkru leyti áþreifanlegur veruleiki, að hún sé
til í nútíðinni á sama hátt og hið fjarlæga í rúmi er raunverulegt.
(bls. 109-110, þýðing: Helgi Haraldsson).
Nú verður væntanlega að taka þessari kenningu um rúmgervingu tímans með
fyrirvara því ekki er um návist tíma í stjarn- eða eðlisfræðilegum skilningi að
ræða heldur er þvert á móti átt við tilveru annars konar tímareynslu í yfir-
færðum skilningi. Heilagur Ágústínus benti einmitt á þennan litla mun í 11.
bók Játninga sinna þegar hann tók það skref að hætta að tala um tíma sem
fortíð, nútíð og framtíð sem víðtækar nafnorðsstærðir og fór að tala um hann
sem lýsandi eigindir: liðið, núverandi, ókomið. Mælanleiki og nálægð tímans á
rætur að rekja til mannlegrar skynjunar og ekki til tímans sjálfs í neinum hlut-
lægum, eðlisfræðilegum skilningi (sbr. einnig Ricoeur 1983, bls. 19-54).
Sterk forlagatrú Gísla sögu Súrssonar er tjáning annars konar tímareynslu í
sögunni. Þetta skýrir jafnframt hvers vegna erfitt reynist að ákvarða tíma-
setningu þeirra yrðinga sem varða örlögin eða þeirra sem vísa í framtíðina (sbr.
vanda í tímagreiningunni hér ofar við að ákvarða setninguna „Aldrei varð
síðan jafnblítt með þeim bræðrum"). Forlögin virka í Gísla sögu Súrssonar
sem það sem ég vil nefna hvarfpunktur, staður sannleika sem stjórnar atburða-
rásinni og gefur ástæðu fyrir atburðunum. Ekki ber að skilja þetta sem
nákvæmlega skilgreindan punkt heldur einmitt sem punkt sem gefinn er í
skyn, sem vísbendingar fást um, punkt sem í bókstaflegum skilningi „týnir
sér“ í sögunni.
Forlögin sem hvarfpunktur eru höfuðatriði í frásagnarrökfræði Gísla sögu