Skírnir - 01.09.1988, Page 13
SKÍRNIR GUNNLÖÐ OG HINN DÝRI MJÖÐUR
219
Þessu er einmitt vert að gefa sérstakan gaum, því að hvað sem
öðru líður rennir það stoðum undir þá skoðun að Oðinn Hávamála
hafi ekki farið inn með leynd heldur verið í lögmætum erindum í
sölum hins aldna jötuns. I Hávamálum þykir koma hans þangað
ekki frásagnarverð, enda er það ránið og flóttinn sem frásögn þeirra
snýst um. En þá vaknar sú spurning hvernig beri að skilja orðið
bölverk í 109. erindi. Er það dulnefni eins og í frásögn Snorra?
I 109. erindi segir frá því er hrímþursar komu „ins hindra dags“,
þ.e.a.s. daginn eftir „brúðkaupið“, að spyrja tíðinda:
At bölverki þeir spurðu,
ef hann væri með böndum kominn
eða hefði honum suttungr of sóit.
Á undan þessu erindi eru komin fimm erindi sem eru lögð Óðni
í munn þar sem hann segir frá atburðarás frá sínum sjónarhóli. I
109. og 110. erindi skiptir um sjónarhorn. Það er skáldið eða þulur
sem talar og í þessum erindum er talað um Óðin í 3. persónu; þessi
erindi eru nokkurs konar eftirmáli (109. erindi) og allt að því trega-
blandinn áfellisdómur um eiðrofin (110. erindi). Það er því ekki
einvörðungu sjónarhornið sem breytist heldur og andi ljóðsins.
Önnur rödd er tekin við.
Nafnorðið bölverkur þýðir, svo sem augljóst er, sá sem vinnur
illt verk, ódæðismaður, og orðið er ekki notað í Hávamálum fyrr
en atburðarásin er öll og hin illa dáð unnin. I handriti eru upphafs-
stafir ekki ritaðir nema í upphafi erinda. Er því ekki unnt að sjá af
rithættinum hvort orðið bölverkur á að skiljast sem eiginnafn, er
hefði dugað sem dulnefni, eða hvort það er nafngift sem þulurinn
sjálfur velur manninum eftir að hið illa verk hefur verið unnið.
Bæði þuli og áheyrendum er, þegar hér er komið, fullkunnugt um
ránið, og því getur þulur efnis vegna og samhengis kallað ráns-
manninn ódæðismann án frekari útskýringa. Hér er skáldið (þul-
urinn) að skýra frá því með eigin orðum að hrímþursarnir hafi
komið til þess að spyrja um ódæðismanninn. Kann að vera að ein-
mitt þarna sé upphafið að því að Bölverkur festist við Óðin sem
heiti og að hugmyndin um dulnefnið sé síðari tíma skýring.
Hvað varðar mjöðinn sjálfan er vert að gefa því gaum að hann er
hvergi tengdur skáldskap í Hávamálum né ætlaður skáldum og