Skírnir - 01.09.1988, Page 14
220
SVAVA JAKOBSDÓTTIR
SKÍRNIR
fræðamönnum sérstaklega eins og í Snorra-Eddu. Hann er hvergi
nefndur annað en „hinn dýri mjöður“ í þeim tveim erindum er
hann kemur við sögu, 105. erindi og 140. erindi. Hinn dýri mjöður
Hávamála gat því gegnt öðru hlutverki en að gera menn að skáldum
eða fræðamönnum.
Geti maður stillt sig um að lesa inn í málið með því að seilast til
Snorra kemur í ljós að það er næsta fátt sameiginlegt með frá-
sögnunum. Auk nafnsins Oðrerir eru atriðin í rauninni aðeins tvö,
Gunnlöð samrekkir Óðni og gefur honum mjöð að drekka. Og
ólík er framsetningin. I Hávamálum er þetta stórbrotið svið og
frjálslegt: kona á gullnum stóli skenkir Óðni dýran mjöð sem hann
virðist hafa unnið til með ágæti sínu og frama að undangengnum
helgum eiði. En í frásögn ritsnillingsins Snorra er þessum atriðum
þröngvað í tveimur setningum inn í nánast lofttómt umhverfi, og
stíllinn er jafnlífvana og sviðið, þurr upptalning atriða sem skotið
er inn á milli fjörlegra og ýkjukenndra goðsögulegra frásagna þar
sem fjölkynngi og myndbreytingar ráða ferðinni. Skyldi Snorri
hafa sleppt svo myndrænum og mikilfenglegum atriðum sem gull-
stól og baugeiði hefði hann þekkt til þeirra?
En jafnvel þó að inntak sögunnar í Hávamálum hafi glatast á
langri vegferð til Snorra er þó ljóst af þessu að atriðin tvö eru lykil-
atriði sem hafa varðveist saman og hljóta því að vera innbyrðis
tengd. Séu þau ekki skoðuð í samhengi leiðumst við á villigötur.
Með þetta veganesti liggur leiðin í keltneskan sagnaarf um fornar
konungsvígslur. I þessum írska sagnaflokki finnum við ekki aðeins
athöfn sem felur í sér bæði lykilatriðin úr Gunnlaðar-sögunni,
þ.e.a.s. konu (gyðju) sem veitir konungsefni (eða hetju) mjöð og
samrekkir honum, heldur og gullstólinn eða ígildi hans, hásætið.
Gyðjan eða persónugervingur hennar nefnist „Sovereignty“,
þ.e.a.s. valdhafi og með „helgu brúðkaupi" veitir hún konungi um-
boð til að ríkja. Þessara keltnesku sagna sér víða stað í evrópskum
miðaldabókmenntum og þær urðu uppistaðan í sögunum um
Graal-leitina, Eyðilandið og hinn ríka Fiskikóng, en rannsóknir
fræðimanna í keltneskum og indverskum fræðum sýna að hér er
um að ræða alþjóðlegt sagnaminni sem er mjög útbreitt með indó-
evrópskum þjóðum og má rekja feril þess í heimildum og sögnum
aftur í gráa forneskju Austurlanda.