Skírnir - 01.09.1988, Síða 22
228
SVAVA JAKOBSDÓTTIR
SKÍRNIR
en lögð er til breyting á texta. Úti fyrir vesturströnd Noregs er eyj-
an Alden sem kölluð var Aldi til forna og er hennar m. a. getið í Eg-
ilssögu.29 Onnur eyja þar hjá heitir Araldi. Sophus Bugge setur
fram þá tilgátu að aldi þýði „hár hólrni", þ. e. a. s. hólmi sem rís hátt
upp úr sjó. A eyjunni Alda er fjall sem sjómenn eru vanir að kalla
„norska hestinn", en eyjan Araldi er, svo sem nafnið bendir til,
kennd við örn og er á þeirri eyju um það bil 200 metra hár tindur.30
Ég hef ekki haft tök á að kynna mér hvort eyjan Alden tengist
fornri trúariðkun á nokkurn hátt og er því treg að skipa jarðar véi
Hávamála niður á ákveðna eyju, en hugsast gæti að orðið aldi hafi
verið notað almennt um hólma með sérstöku auðkenni í landslagi.
Jarðar vés aldi væri þá eyja eða hólmi þar sem slíkur helgistaður er.
Þegar sagt er að Oðrerir sé upp kominn á alda vés jarðar, þá gæti
það þýtt að Oðrerir sé kominn upp úr helgidómnum, þ. e. a. s. upp
á yfirborð eyjarinnar þar sem vé Jarðar er.
Raunar rekur arfsögn um Gunnlöðu og Alf hinn gamla jarl, eig-
inmann hennar, ætterni þeirra til Hörðalands á vesturströnd
Noregs.31
VI
I Hávamálum endar vígslan með hörmungum. Nývígður konung-
ur stelur helgigripnum. „Ins hindra dags“ koma hrímþursarnir í
Hávahöll að spyrja tíðinda. Haldi menn fast við þá skoðun að
Hávahöll sé Ásgarður og Hávi Óðinn sjálfur verður atburðarásin
merkingarleysa. En í ljósi þess helgisiðar sem ég hef lýst getur Hávi
ekki verið annar en sá sem í krafti trúarþekkingar og valds á dul-
rænum öflum hefur stjórnað atburðarásinni allri og leitt ungt kon-
ungsefni inn í dularheim sem honum var gert að lúta og jafnframt
öðlast vald yfir. Sá kennari sem verðskuldar virðingarheitið „hinn
Hávi“ í þessu samhengi er konungur annars heims eða undirheima,
hliðstæða við hinn írska Lug. Staðgengill hans á jörðinni við helgi-
siði er fræðamaðurinn, sem Snorri nefnir svo í Eddu sinni. Nor-
ræni mjöðurinn tengist því þremur stéttum manna, konungum,
skáldum og fræðamönnum eins og hliðstæða hans, indverski
drykkurinn soma, sem var fórnardrykkur konunga, skálda og
brahmana svo sem síðar verður að vikið. Mjöðinn nefnir Snorri
suttungamjöð, mjöð suttunga. I Skírnismálum eru jötnar kallaðir