Skírnir - 01.09.1988, Page 24
230
SVAVA JAKOBSDÓTTIR
SKÍRNIR
endurfæðing í næsta lífi.34 Rómverskir sagnaritarar segja að keltn-
eskir drúídar hafi kennt að sálin dæi ekki en lifði áfram in alio orbe
(í öðrum hring), þ. e. a. s. menn voru endurbornir í næsta lífi.35
Við finnum ótal dæmi úr Eddukvæðum og öðrum ritum sem
bera vitni um sams konar trú hjá Germönum. I eftirmála Völs-
ungakviðu hinnar fornu stendur: „Það var trú í forneskju að menn
væru endurbornir en það er nú kölluð kerlingarvilla" en orðið kerl-
ingarvilla í þessu samhengi hlýtur að tengjast gyðjutrú. Þá má
minna á orð eins og „ódáinsakur“ og „Land lifanda manna“ sem
bera með sér þessa sömu hugmynd um ódauðleika.
I bókinni The Celtic Realms segja höfundarnir, Dillon og
Chadwick:
Hið andlega hlutverk sem konur inntu af hendi við iðkun þessara endur-
fæðingartrúarbragða var háleitt. A þessu skeiði írskrar goðafræði var það
konan en ekki karlinn sem var hinn andlegi farvegur sálna hinna dauðu á
leið þeirra til endurfæðingar í næsta lífi.36
Ekki verður um það deilt að norrænir menn trúðu á gyðjur. Um
það bera sagnir, bókmenntir og fornleifafundir augljóst vitni.37
Irski fræðimaðurinn O’Rahilly telur að írska gyðjan hafi ekki
einvörðungu verið gyðja lands heldur og tengd sól, ám og vötnum.
Dregur hann það m. a. af nöfnum þeirra. Sjálft landið, Eire, dregur
nafn sitt af gyðju sem nefnir sig Flaith Eirenne, vald írlands, í
sögum. Ein írska gyðjan heitir Grian og O’Rahilly telur hana sól-
argyðju einfaldlega af því að nafn hennar þýðir Sól. Nafn írsku
gyðjunnar Ainne telur hann merkja „ferðalangur himins“, og
tengjast hjólinu eða fagrahveli þ. e. a. s. sólinni.38 Mór af Munster
er talin gyðja en um hana var sagt að konungar írlands leituðu
hennar eða sæktust eftir henni og er það haft að orðtaki í Munster
þegar sólin skín að Mór sitji í hásæti sínu.39
Samkvæmt heimildum er hásætið óvefengjanlega staður gyðj-
unnar við fornar konungsvígslur. Sovereignty sat á kristalstóli í
sögunni um Conn og svipuð dæmi má finna úr Austurlöndum. A
vissum mynttegundum indverskum sem tengjast konungdæminu
sérstaklega er að finna myndir af Lakshmi þar sem hún situr ýmist
á lótusblómi eða á hásæti með háu baki eða baklausu.40 Við kon-
ungsvígslur bæði á Egyptalandi til forna og í Austurlöndum heita
sjálf hásætin gyðjunöfnum, Isis heitir hásætið í Egyptalandi.