Skírnir - 01.09.1988, Page 30
SKÍRNIR
236 SVAVA JAKOBSDÓTTIR
huga virðast hinar sterku konur Islendingasagna, sumar hverjar,
hafa þegið grunsamlega mikið af eiginleikum konungsgyðjunnar.
Gunnhildur kóngamóðir er auðþekkjanleg enda drottning, Guð-
rúnu Osvífursdóttur má líklega telja í þessum hópi og í Njálu eru
þær tvær, sú gamla og sú unga, að etja saman þrælum í stað kappa.
Hefði Gunnar áttað sig nógu snemma á því að líf hans var komið
undir goðkynjuðum lokki úr haddi konu hans hefði hann varla
rekið henni kinnhestinn. Og bætti þar gráu ofan á svart því að kon-
ungur sem lætur bú sitt verða matarlaust hefur hvort eð er fyrirgert
rétti sínum til ríkisins, hlíðarinnar fögru.
IX
Hér verður að sleppa því að telja upp dæmi um „konunglegt brúð-
kaup“ við konungsvígslur í Indlandi eða á Austurlöndum almennt
og skyldleika þeirra við siði íra en um það hefur mikið verið ritað
af fræðimönnum sem hafa um áratuga skeið rannsakað sameigin-
legan uppruna hins forna konungdæmis.
Ég mun fremur beina athyglinni að indverskum goðsögum og
kemur þá væntanlega í ljós að saga Snorra af ráni mjaðarins er svo
fasttengd goðsagnamynstrinu að frásögn hans um næturnar þrjár
stendur sem vandræðalegt innskot, dauft bergmál af helgisið sem
gæti hafa verið fallinn í gleymsku þó að hvort tveggja sé auðvitað
úr sama hugmyndaheimi.
Indverski fórnardrykkurinn hét soma. Eldra orð yfir drykkinn
var madhu, skylt mjöður og meadP Soma var drykkur konunga,
brahmana og skálda. Hann gerði menn ódauðlega, blés skáldum
andagift í brjóst og gæddi herkonunginn og stríðsguðinn Indra
ofurmannlegu hugrekki. Soma magnaði guðina guðlegu eðli sínu.
Soma var tunga guðanna. Ollum þessum hlutverkum gat hann
gegnt í senn af því að hann var í eðli sínu ódáinsveig og veittur við
fórnarathafnir og helgisiði sem táknuðu endurfæðingu.
„Við höfum drukkið soma. Við erum orðnir ódauðlegir. Við
höfum komist til ljóssins. Við höfum fundið guðina,“ stendur í
Rig-Veda.54
Jurtin sem notuð var í drykkinn og gerði hann áfengan hét einnig
soma. Hún óx á Mujavat fjalli, stendur í Rig-Veda. Hana varð að