Skírnir - 01.09.1988, Síða 45
SKÍRNIR
SHAKESPEARE Á ÍSLANDI
251
ingamafn fyrir Nym. Garpurinn Pistol hlaut nafnið Hólkur, sem er
e. k. niðrandi karlkyns gæluorð, algengt fyrir „byssa“ (kvenkyns).
Fyrir Hotspur væri Heitspori bókstafleg þýðing; en þar varð þó
fyrir valinu nafnið Eldhæll (fireheel), sem er aðeins tvö atkvæði (í
öllum föllum) og þótti raunar nálgast enska nafnið nokkru meir,
þrátt fyrir merkingarmuninn, m. a. ve'gna hljóms. Oft eru þessar
nafngiftir vitaskuld talsvert álitamál, og hér hef ég valið dæmi úr
mínum eigin þýðingum.
Ymsum þykir það furðu gegna, að þrátt fyrir strjálbýli og erfiðar
samgöngur hafa ekki komið upp neinar mállýzkur á Islandi, svo
teljandi sé, og er það vissulega mikils vert frá flestu sjónarmiði.
Hins vegar setur það Shakespeares-þýðendur í nokkurn vanda,
þegar við þess konar málfyrirbæri er að glíma, svo sem í kónga-
leikjunum og víðar. Þá er naumast um annað að ræða en ýkja nokk-
uð viss latmæli eða bögumæli ellegar þann litla mismun á fáeinum
málhljóðum, sem vart verður eftir byggðarlögum, ef ekki vill betur
til.
Þrátt fyrir ýmisleg vandkvæði á borð við þau sem hér hefur verið
vikið að, er íslenzk tunga búin ágætum kostum, sem þýðendum
koma betur en vel. Þar má nefna orðaröð, sem er nokkru frjálslegri
en t. d. í ensku, svo að oft er hægt að skipa orðum saman nokkuð
eftir því hversu vel þau falla hvert að öðru, án þess röðin verði
óeðlileg. En meginkostur málsins er orðaforðinn, sem er mikill,
ekki sízt á sviði skáldskapar, sögu og alþýðlegrar heimspeki. Þar
kemur til gróin hefð skáldmenntar og húmanískra fræða allt frá
hinu mikla blómaskeiði íslenzkra bókmennta á 13. og 14. öld, þeg-
ar samin voru ritverk sem talin eru meðal hátinda í bókmenntum
heimsins. Og svo vel hefur Islendingum tekizt að varðveita tungu
sína, að enn lesa þeir þessi rit án vandkvæða, enda eru þau að
nokkru leyti undirstaða máluppeldis í skólum. Sagt hefur verið, að
Islendingum veitist jafn-auðvelt að lesa rit Snorra Sturlusonar og
Halldórs Laxness. Sá fyrr nefndi var skáld og frægur sagnaritari
snemma á 13. öld, en hinn síðar nefndi er núlifandi Nobels-rithöf-
undur. Islenzkir þýðendur eiga því hæg heimatök um mikið fjöl-
skrúð í orðfæri og stíl, og þurfa jafnvel lítið að óttast fyrnsku, þó
að fanga sé leitað alllangt aftur í aldir. Slæm íslenzk þýðing er ekki
sök málsins, heldur þýðandans.