Skírnir - 01.09.1988, Page 56
262 KIRSTEN WOLF OG JULIAN M. D’ARCY SKÍRNIR
Það er nokkur ráðgáta hvernig Scott tókst að klúðra svo gjör-
samlega þessari lýsingu sem er að líkindum ein sú þekktasta úr Eyr-
byggju. Eina trúverðuga skýringin virðist vera ótrúleg fljótfærni og
að hann hafi alls ekki yfirfarið þýðinguna. Þó gæti kannski verið að
kæruleysi Scotts ætti sér allt aðra rót: áhugaleysi fyrir þessum hluta
sögunnar. Þessi tilgáta er ekki eins fráleit og í fyrstu mætti halda því
strax á eftir hinni afbökuðu lýsingu á viðureigninni á Helgafelli
kemur nákvæm endursögn Scotts á átökum milli tveggja seið-
kvenna og fjölskyldna þeirra, aðallega út af hestaþjófnaði (483-88).
Scott gerir enga villu í þessum þætti (nema eina sem verður rædd
síðar) sem er stundum orðrétt þýðing á sögunni. Eins og Simpson
hefur bent á28 virðist Scott njóta sín sérstaklega í lýsingum á yfir-
náttúrlegum atburðum svo sem sést enn betur í nákvæmum frá-
sögnum hans af hinum sænsku berserkjum Styrs (489-93), dular-
fullum dauða Þórgunnu hinnar suðureysku og draugagangi þeim
sem honum fylgir á Fróðá (501-509); Scott til mikillar ánægju og
aðdáunar eru draugarnir að lokum hraktir á brott með dyradómi.
Hér vaknar sannarlega sú spurning hvernig Scott valdi sér efni úr
Eyrbyggju, því eins og allir sem þekkja söguna gera sér ljóst þá er
vægast sagt undarlegt hverju hann sleppir í Abstract. Það er til
dæmis ekki minnst á illdeilur þeirra Vigfúsar í Drápuhlíð og Snorra
goða (XXIII-XXVII) og frá löngum og blóðugum átökum þeirra
Þorbrandssona og Þorlákssona, sem mynda hápunkt sögunnar, er
sagt í aðeins tíu línum (500). Hin samfléttaða saga Björns As-
brandssonar, sem framdi hjúskaparbrot með Þuríði á Fróðá, fór
sjálfviljugur í útlegð og birtist í lokin sem indíánahöfðingi í Amer-
íku (XXIX, XLVII og LXIV), fær að fljóta með sem neðanmáls-
grein (503). Svo harkalegur niðurskurður á meginmáli sögunnar
leiddi Scott í aðrar ógöngur eins og sést á því hvernig hann segir frá
deilum Arnkels og Snorra um Krákunesskóg. Faðir Arnkels hafði
eitt sinn handsalað Snorra skóginn en þegar faðir hans deyr gerir
Arnkell, samkvæmt sögunni (XXXV-XXXVII), aftur tilkall til
skógarins og í átökum sem í kjölfar þess fylgja er einn af fylgdar-
mönnum Snorra drepinn. Snorri tapar einnig þeim málaferlum sem
á eftir koma og sendir mann til að vega Arnkel en sú tilraun
mistekst. Snorri og menn hans ráðast að lokum á Arnkel og drepa
hann árið eftir. Scott segir frá þessu á eftirfarandi hátt: