Skírnir - 01.09.1988, Page 70
276
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
SKÍRNIR
aldamót. Módernisminn hefur eiginlega gert skáldsöguna að at-
hvarfi eða „ruslakistu“ fyrir alla texta sem virðast hvergi annars
staðar eiga heima.
I „Loksins, loksins“ er að sjá sem Halldór Guðmundsson líti á
bók Pórbergs sem sagnaverk er snýst gegn hefðbundnum skáld-
sögum. Uppbygging þess „skilur það skýrt frá síðnatúralísku
skáldsögunum" (113). Bréf til Láru (1924) fær samt ekki einkunn-
ina „fyrsta íslenska nútímaskáldsagan“ (161). Vefarinn mikli
(1927) situr einn að henni, ef til vill vegna þess að Halldóri þykir
hann „enn merkilegra verk“ (110) oghann verður jafnframt að „út-
gangspunkti" í rannsókn Halldórs á „upphafi íslenskra nútíma-
bókmennta“, svo sem áður segir.7 En semsagt: „Með Bréfi til Láru
og Vefaranum mikla var loks lagður grunnur að íslenskum nútím-
abókmenntum“ (206).
En hvað var byggt á þessum grunni? Er einhver samfelld þróun
módernisma frá Vefaranum til Tómasar Jónssonar? Halldór útlist-
ar hvergi slíka samfellu, nema þá helst hjá Halldóri Laxness. Sam-
fellan í höfundarverki Laxness birtist að mati Halldórs Guð-
mundssonar „ekki síst í því að Halldór vinnur hvað eftir annað úr
nokkrum af mikilvægustu þemum módernismans, og byrjaði þá
úrvinnslu strax í Vefaranum. Sömu meginhugmyndir má finna aft-
ur og aftur í höfundarverki Halldórs, hvað sem margbreytni þess
líður, og margar þeirra eru ættaðar frá nýstefnumönnum aldamót-
anna" (14).
Hér held ég að Halldór sé sem oftar blindaður af „þemurn" sín-
um og það hindri hann í að gera grein fyrir þeim skilum sem urðu
á ferli Laxness eftir Vefarann. Þó minnist hann á öðrum stað á það
hvernig „Halldór Laxness sneri heim og tók upp þráð íslenskrar
sagnahefðar" (204). Þetta hygg ég sé nokkuð almenn skoðun sem
vart verði hnikað, þótt ugglaust eigi menn eftir að gaumgæfa nánar
ýmis skáldskaparleg og formræn atriði í sagnaritun Laxness. I
raunsæisepík sinni er hann aldrei rígbundinn hefð, heldur gerist í
rauninni nýsköpunarmaður innan raunsæishefðar, svo ég noti svo-
lítið mótsagnakennt orðalag. Þannig þróar hann raunsæisskáld-
söguna áfram án þess að raska jafnvægi hennar- á svipaðan hátt og
aðrir merkir höfundar hafa gert á öldinni: Knut Hamsun, John
Steinbeck, I. B. Singer, William Heinesen.