Skírnir - 01.09.1988, Page 78
284
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
SKÍRNIR
boðskipti í samfélaginu. Það kemur því ekki mjög á óvart að í áður-
nefndri bók gagnrýnir hann hóp fræðimanna20 sem hafa ýmist
snúist gegn sjónarmiðum Upplýsingarinnar eða álíta hana með öllu
runna saman við nútímasamfélag.
Það er athyglisvert hvernig Habermas beitir sér m. a. gegn sjón-
armiðum fyrirrennara sinna í Frankfurtskólanum, þeirra Adorno
og Horkheimers.21 I bók sinni Dialektik der Aufklárung (Díalek-
tík Upplýsingarinnar, 1947), gagnrýndu þeir Upplýsinguna og
bentu á að sú veraldlega skynsemi, sem með skýringarmætti sínum
á að snúast gegn hverskonar goðsögnum um mannlegt atferli, bæri
ætíð sjálf í sér eiginleika til að verða goðsögn um mannlega hegðun.
Þannig mætti nota hana til að réttlæta (,,rasjónalísera“) hvert það
ástand sem valdhafar skapa, jafnvel hið „óskynsamlegasta“ skipu-
lag og óhugnanlegustu valdbeitingu, svosem ódæðisverk nasism-
ans (en höfundarnir voru landflótta frá Þýskalandi Hitlers). Jafn-
framt draga þeir í efa getu einstaklingsins (hins borgaralega sjálfs)
til að vera sú miðstöð sjálfstæðis og skynsemi sem hugsjón Upplýs-
ingarinnar gerir ráð fyrir. Sjálfsveran festist í þann vef hagkvæmni-
sjónarmiða og valdamynsturs sem einkenni borgaralegt samfélag.
Þannig verði hún aðeins lítill hlekkur í samfelldri keðju sem haldi
saman ráðandi hugmyndafræði og merkingarheimi samfélagsins
og tryggi þarmeð „eðlilegt” ástand.
Habermas telur að í þessu viðhorfi felist uppgjöf gagnvart
skynseminni. Hann bendir á að gagnrýni manna eins og Adorno og
Frakkans Jacques Derrida á sjálf-stæða skynsemi geti einungis átt
sér stað fyrir tilstilli slíkrar skynsemi. Hún ein geri upplýsta gagn-
rýni mögulega.22 A hitt verður þó að líta að hugmyndafræði borg-
aralegs samfélags byggir að stórum hluta á táknmynd hins frjálsa
einstaklings, hinnar upplýstu lýðræðisveru sem tekur þátt í að
móta samfélag sitt; táknmynd sem vissulega á rætur sínar í boðskap
Upplýsingarinnar en kann að gefa alranga mynd af raunverulegri
stöðu einstaklingsins.
En hvernig tengist þetta umræðunni um módernismann? Sumir
þeirra manna sem Habermas gagnrýnir hafa mikinn áhuga á mód-
ernískum tilburðum á listasviðinu. Þeir líta hinsvegar ekki á hæfni
þeirra til að sundra merkingarkeðjunni sömu augum og hann.
Dæmigert er að Habermas gagnrýnir Nietzsche fyrir að rífa