Skírnir - 01.09.1988, Page 94
300
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
SKÍRNIR
Þessi ummæli bregða upp því skemmtilega sjónarhorni að form
þessara verka hljótist af skapandi mistökum í tímahraki. „Hel“
heldur lesanda í óvissu um hvernig skilja beri persónur og atvik
vegna þess að ekki hefur komist „til skila“ hvort honum beri að
byggja á væntingum sagnalistar eða ljóðagerðar. Afleiðingin er sú
að textinn rásar á milli bókmenntagreinanna og á í vandræðum með
að verða Verk.
Við skulum segja að Vefarinn mikli hefjist sem nýrómantísk
skáldsaga sem dregur dám af fyrri verkum höfundar og er jafnframt
með auðkennilegu ívafi borgaralegs realisma. Það er ekki óeðlilegt
að „Onnur bók“ hefjist á bréfi Diljár, en það reynist hins vegar
ekki vera venjulegt bréf til Steins heldur ákall sem er um leið tilraun
Diljár til uppgjörs við þennan grimma drottnara sem náð hefur svo
sterkum tökum á lífi hennar. En um það bil sem bréfaformið er tek-
ið að móta skilning okkar að verulegu marki nær Steinn „völdum“
á því, eða réttara sagt ruglar því með framúrstefnuljóði (sem Lax-
ness hafði áður birt í svolítið öðruvísi formi undir titlinum „Úng-
lingurinn í skóginum"). Þá birtast barnaævintýri Diljár sem sjálf-
stæður kafli, rétt eins og væru þau hvert annað eðlilegt söguefni í
verkinu.
Þvínæst birtist, enn án tenginga af hálfu söguhöfundar, langt
bréf Jófríðar til Diljár, bréf sem eitt og sér væri dæmi um venjulega
nýrómantík, en verður til að ítreka einkenni sem gætt hefur frá
upphafi verks, nefnilega játningastíl sögunnar. Persónur eru sífellt
að „opinbera“ sig, en játningar þeirra eru þó ekki síður leit að lífs-
skilningi, sektarkennd sem biður um form friðþægingar og frá-
sagnar sem skýri tengslin við umheiminn. En fyrir „mistök“ verð-
ur aldrei úr þessu velmótuð skáldsaga, heldur orðræða sem er í
stöðugri mótun og hegðar sér samkvæmt átökum sjálfsins við ytri
heim. Hér sem víðar fjallar texti öðrum þræði um eigin tilurð; hann
verður til um leið og sjálfið leitar að spegilmyndum sínum. Þetta
sést vel í þriðju bók sem er undirlögð af „margradda" samræðum
og bréfum Steins sem hamast við að smíða heimsmynd sína fyrir
augliti föður Albans um leið og hann speglar sig í munkinum.
Vefarinn er rækilega „ófullkomin" skáldsaga; við getum kannski
litið á það efni hennar, sem þegar hefur verið rætt, sem efnivið í
skáldsögu sem höfundur skrifaði ekki. Eg held því að Halldór Lax-