Skírnir - 01.09.1988, Side 97
SKÍRNIR
FYRSTA NÚTÍMASKÁLDSAGAN
303
Tómasi Jónssyni metsölubók svipar til Bréfs Þórbergs að þessu
leyti. Skáldsagan er brotaverk og mætti nota um hana hugtakið
„collage“; hún er klippimynd af Tómasi, sett saman af honum sjálf-
um á einkar ruglingslegan hátt. Hann er „miðstöð“ verksins; hann
ætlar að segja ævisögu sína, þá sögu sem hvað brýnast er að móta í
Verk, spegla í heilsteyptri mynd sem jafnframt varpar ljósi á ein-
staka þætti lífsins. Þessir þættir, þræðir textans, taka hinsvegar sí-
fellt völdin af heildarmyndinni:
Ævisaga
Eg er afkomandi hraustra, bláeygðra víkinga. Eg á ætt að telja til hirðskálda
og sigursælla konunga. Eg er íslendingur. Nafn mitt er Tómas Jónsson. Eg
er gamall
nei nei (7)
Þarna eru saman komnir nokkrir meginþættir ævisagna, sem
ekki fá þó að leika lausum hala í hefðbundinni ævisagnagerð. Fyrst
er sjálfinu fundinn staður í speglasal fortíðar, ætternis og þjóðernis.
Þvínæst fylgja játningar-Tómas byrjar að tala um það sem stendur
honum næst auk nafnsins - hann er gamall. Því neitar hann jafn-
skjótt og kannski með réttu því ævisaga býður upp á flótta, afneit-
un eigin ástands; við erum allt annað en það sem við erum núna,
maður fer að segja frá öðru en því sem er, í rauninni frá öðru sjálfi.
Textinn lýtur því miðflóttaafli, hann stefnir burt frá miðstöð sinni,
skaparanum. I venjulegum ævisögum er að sjálfsögðu hamlað gegn
ringulreið sem af þessu kann að leiða, í fyrsta lagi með þeim sam-
fellda söguþræði sem lesinn er inn í ævina og í öðru lagi með því að
hólfa skipulega niður hin ýmsu athafnasvið manneskjunnar sem
um ræðir.
Þess vegna get ég ekki litið svo á að Tómas Jónsson metsölubók
sé „saga í hólfum“ eins og Sigfús Daðason hélt fram í ágætum rit-
dómi skömmu eftir að bókin kom út, „með fjöldann allan af inn-
skotum: „þjóðsögum“, háðsögum, óhugnaðarsögum (histoires
macabres) sem eiga fáa sína líka í íslenzkum bókmenntum, en þessi
innskot hafa þau ein tengsl við Tómas Jónsson að svo er látið heita
að þær séu varðveittar í minni hans“.48 Tómas þráir skipulag og
reglusemi og hann telur sig hafa nokkuð góð tök á lífi sínu: „Inni
hjá mér sitja hlutirnir á sínum tiltekna stað. Algert stjórnleysi hlut-
anna ríkir í hinum hluta íbúðarinnar." Sama skipulag telur hann að