Skírnir - 01.09.1988, Page 101
SKÍRNIR
FYRSTA NÚTÍMASKÁLDSAGAN
307
ans sjálfs eru sífellt til umræðu í sögunni): „Til er tvenns konar
minni: Hið samlagandi minni, sem eykst án þess að aðgreina, og
spjaldskrárminnið, sem eykst og heldur öllu sundurgreindu“
(178). Tómas þráir skipulega, sundurgreinda mynd af veruleikan-
um, en hann hefur jafnframt kollvarpað henni með því að setja
hana saman sjálfur, af sérvisku sinni sem hafnar ytra skipulagi.
Texti hans er því undirorpinn hinni samlagandi hugsun:
hvað skyldu margir menn deyja þetta andartakið hvað skyldu margir
fæðast meðan ég segi hó í x-ríki í Suður-Ameríku fæðist eitt og hálft barn
hverja mínútu sem líður ég hef gert mér í hugarlund að kornakurinn
hljóti að líkjast gulu hafi ég hef aldrei séð kornakur nema rétt á mynd og
þar stóð hann auðvitað kyrr mikið hlýtur annars að reynast undarlegt í
elli að hafa lifað hinu fjölbreytta lífi Oddnýjar Sen ég minnist bókar
hennar um Kínaveldi (29)
En í sambland við þessa „kosmísku" hugsun, þessa skondnu og
rómantísku ringulreið, einkennist texti Tómasar jafnframt af raun-
sæislegu nostri við smáatriði daglegs lífs, langt umfram það sem
viðgengst í raunsæissögum. Að þessu leyti berjast í Tómasi, rétt
eins og í Þórbergi, „tvö andstæð meginöfl, annars vegar vísindaleg
smásmygli, hins vegar rómantískt hugmyndaflug", eins og segir í
Bréfi til Láru (8). Það er fyrst og fremst þessi árekstur ímyndunar
og skrásetningar sem einkennir þau nýju sambönd sjálfs og um-
hverfis sem eru í mótun í þessum verkum.
Eg segi í mótun, rétt eins og ég talaði áður um texta sem verk í
mótun. Því raunveruleg nýsköpun þessa sambands felur í sér
endursköpun táknkerfa, sjálfs merkingarheimsins, og vísar þ. a. 1.
ekki aðeins á nýja heimsmynd, heldur nýja sjálfsvitund. Við vitum
í raun ekki hvernig slík bylting gæti orðið félagslegur raunveru-
leiki, til þess erum við of bundin táknkerfum okkar. Við skynjum
ef til vill fyrst og fremst andóf og „neikvæði" þeirra texta sem leit-
ast við að kollvarpa táknkerfunum. Frá sjónarhóli félagslegrar
merkingar virðast þeir boða stjórnleysi, en í anarkisma sínum er
líkt og þeir vísi til annars konar merkingarsköpunar, annars nú-
tíma. Við sjáum einnig ummerki um reynslu þeirra persóna sem
hafna þannig á mörkum merkingar. „I vitund minni er ekki mikill
munur á hugmynd og ytri reynslu.“ Svo hljóðar fræg yfirlýsing