Skírnir - 01.09.1988, Blaðsíða 105
SKÍRNIR
FYRSTA NÚTÍMASKÁLDSAGAN
311
andi. Athyglisvert er að Tómas, sem sífellt er að glíma við sína
kvenlegu sál, Onnukatrínu, veltir því fyrir sér „að gerast-kvenmað-
ur. [. . .] Tími karlmannsins er liðinn. Karlmanninum hefur tekizt
gegnum aldirnar að gera sig að algerlega þekktri stærd. Konan er
hins vegar enn á stigi hinnar óþekktu stærðar" (296—7). Ekki þýðir
þetta þó að Tómas lofsyngi kvenmynd eilífðarinnar, því konan er
honum uppspretta sektarkenndar og óra.
Eg skil við þetta efni á þreifingastiginu, en vil að lokum víkja aft-
ur lítillega að stöðu hins „geðveika“ móderníska textaflæðis and-
spænis Upplýsingunni. Rétt er að ítreka að ég á við stjórnleysi
tákna sem formgerðareinkenni skáldverka en ekki bara sem lið í
sköpun furðulegra persóna, þótt þær séu látnar vera uppspretta
textaflæðisins. Getum við, líkt og Habermas, réttlætt módernism-
ann út frá því sjónarmiði að með því að svipta merkingarfjötrum
hefðarinnar af táknum og athöfnum búi formbyltingar hans í hag-
inn fyrir nýja skynsemi og óheft boðskipti? Eg held að hér reynist
þungur á metunum sá fyrirvari sem Habermas setur sjálfur og ég
gat um; fyrst samfélagið lýtur sundurgreiningu menningarinnar,
þá yrðu byltingar að eiga sér stað á öðrum sviðum til að maðurinn
gæti fyllt hin tæmdu tákn af öðru en hinu áhættusama „tómmasi“.
Ef til yrði samfélag frjálsra boðskipta, þá yrði módernismi kannski
hjóm eitt. A meðan slíkt gerist ekki leikur hann hlutverk sitt á
mörkum anarkisma og Upplýsingar.
Athugasemdir og tilvitnanir
1. Tómas Jónsson metsölubók kom út hjá Helgafelli, Reykjavík 1966, en
nýja útgáfan er í kiljuformi á vegum Forlagsins, Reykjavík 1987. Hún
er í raun ljósrit af fyrstu útgáfu og með öllu óbreytt, að frátöldum for-
mála sem höfundur lætur fylgja nýju útgáfunni. Eftirfarandi tilvitnanir
í söguna, með blaðsíðutali í svigum, eiga því við báðar útgáfur. Eg læt
í ljós þá von að áfram verði haldið kiljuútgáfu á bókum Guðbergs og
liggja þá beint við þau verk sem fylgdu á sínum tíma í kjölfarið á Tóm-
asi og nú eru illfáanleg: Ástir samlyndra hjóna og Anna.
2. Líka líf. Greinar um samtímabókmenntir, Iðunn 1979, bls. 104.
3. Sjá t.d. grein Sigurðar A. Magnússonar (birtist fyrst í desember 1966):
„Absúrd bókmenntir og Tómas Jónsson metsölubók", Sáð í vindinn.
Greinar ogfyrirlestrar, Helgafell, Reykjavík 1968, bls. 74.
4. Mál og menning, Reykjavík 1987. Eftirleiðis verður vísað til ritsins
með blaðsíðutali í svigum innan meginmáls.