Skírnir - 01.09.1988, Page 117
SKÍRNIR FRÁ LANDNÁMSTÍMA TIL NÚTÍMA
323
ar forsendur nútímalegrar sagnfræðigagnrýni, eins og fjarsýn og
skilning á samhengi og uppruna. Hin gamla arfleifð, þ. e. hreintrú-
uð viðurkenning textanna án nokkurrar umhugsunar eða eftir-
þanka, er enn í dag rúmfrek og þrúgandi í skólakennslu, eins og
áður er bent á.
Samt sem áður hafa gömlu landnámshugtökin verið gagnrýnd
hart af íslenskum sagnfræðingum á þessari öld. Þar er rétt að nefna
fremstan Barða Guðmundsson sem ljóslega benti á, í grein sem út
kom árið 1938, að gömlu textarnir um landnámið fjölluðu fyrst og
fremst um gamlan jarðeignarrétt.9 Jón Jóhannesson viðurkenndi
einnig að hagsmunir af ýmsu tagi með rætur í samfélagi miðalda
lægju að baki gömlu textunum um íslenska landnámið.10
Hin sögulega gagnrýni landnámshugtakanna á þessari öld er að
hluta til háð hinum umfangsmiklu íslensku samfélagsbreytingum,
þ. e. gagngerum breytingum á bændasamfélaginu og minnkandi
vægi þess samanborið við þéttbýli þar sem fengist er við fiskveiðar,
verslun og iðnað. Þegar fjarsýn fæst yfir gamla bændasamfélagið,
fæst einnig að sumu leyti fjarsýn yfir gömlu frásagnaheimildirnar.
En stjórnmálaástandið á Islandi hefur ef til vill tafið fyrir því að hin
sögulega gagnrýni fengi þrifist. Hinar fornu heimildir voru mikil-
vægt efni sem varðaði stjórnmál og þjóðernismál, bæði inn á við til
þess að stappa stálinu í Islendinga og út á við til þess að marka sjálf-
stæða stefnu gagnvart öðrum þjóðum, ekki síst Dönum. Formlegu
pólitísku sjálfstæði náðu Islendingar ekki fyrr en árið 1944.
Langdregin sjálfstæðisbarátta á þessari öld skýrir ef til vill að
hluta hina hikandi og sveiflukenndu sögulegu gagnrýni á þann
landnámstíma sem miðaldaheimildirnar segja frá. I fræðirannsókn-
um síðustu ára hefur meira að segja verið reynt að snúast til varnar
fyrir hönd ættartalna Landnámabókar og telja þær áreiðanlegt
sögulegt heimildaefni.11
Þessi trúvarnarhneigð er þó sjaldan svo opinská og augljós.
Skilningur á því að ákveðin atriði í hinum fornu frásögnum geti
ekki verið í samræmi við sannleikann verður stundum til þess að
ákaft er bent á önnur atriði í frásögnunum sem gætu verið sann-
leikanum samkvæm án þess að unnt sé að sanna það. En trúvarnar-
hreyfingin er líka blæbrigðaríkari en þetta. Oft eru rökleiðslurnar
flóknar og bera vitni um mikinn lærdóm og uppfinningasemi.