Skírnir - 01.09.1988, Síða 136
342
HELGI SKÚLI KJARTANSSON
SKÍRNIR
3. Áveitur til útflutnings?
Landbúnaður á Islandi framleiddi allt fram á 20. öld aðallega til
heimanota og til útflutnings, en lítið fyrir innlendan markað. Inn-
lent þéttbýli var ennþá lítið, íbúar þess notuðu takmarkað af bú-
vörum og reyndu í lengstu lög að framleiða þær sjálfir. Kúabú-
skapurinn var til heimilisnota, sauðfjárbúskapurinn meira til út-
flutnings. Og þótt nokkuð af sauðfjárafurðum færi á innlendan
markað, réðst verð þeirra af útflutningsverðinu; innanlandssalan
var aukageta með útflutningsframleiðslunni, líkt og innanlandssala
sjávarafurða.
Sauðfjárbúskapur var háður sumarhögum, vetrarbeit og engja-
heyskap, þannig að hann krafðist mikils landrýmis. Menn sáu ekki
fram á að fjárbúskapur styddist að miklu leyti við ræktað land, eins
og nú er orðið. Auk þess gekk erfiðlega að afla sauðfjárafurðunum
markaðar, þótt menn vonuðu lengst af að sá vandi væri tímabund-
inn. Þannig voru vexti fjárbúskaparins allþröngar skorður settar.
Aukin umsvif í landbúnaði yrðu, að menn töldu, að byggjast á
ræktun, þaulræktun tiltekinna svæða, meðan fjárbúskapurinn
nýtti áfram megnið af víðáttum sveitanna. Ræktunarbúskapurinn
yrði að einhverju leyti garðrækt, sumir nefndu líka til svín og
hænsni, en að mestu yrði hann kúabúskapur, mjólkurframleiðsla,
byggð á túnum og áveitum, miklu grasi af litlum svæðum.
Aukna mjólkurframleiðslu hugsuðu menn um í tvenns konar
samhengi. Mjólkurþörf innlends þéttbýlis þyrfti að fullnægja með
ræktun í næsta nágrenni bæja og þorpa, helst þannig að sem flestar
fjölskyldur gætu haft smábúskap í hjáverkum. Hins vegar ætti að
framleiða smjör og ost til útflutnings í stórum stíl. Þar sáu menn
svigrúmið til stórfelldrar útþenslu í íslenskum landbúnaði, og þá
væru líka nóg not fyrir hinn mikla og tiltölulega ódýra grasauka af
áveitunum í Árnessýslu. Með þeim þyrfti samgöngubætur, helst
járnbraut til Reykjavíkur, ekki til að versla við bæjarbúa, heldur til
að koma afurðum greiðlega á erlendan markað og flytja að sér þau
aðföng sem ræktunarbúskapur krefðist. „Með áveitunni hlytu
búnaðarhættir í Flóanum mjög að breytast,“ ritar Sigurður Sig-
urðsson ráðunautur, áhrifamesti hvatamaður áveituframkvæmd-
anna, árið 1907.45 „Þá mundi fyrst og fremst verða lögð stund á